150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[15:56]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er sýslumönnum heimilt að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum fjarfundabúnað. Ástæðan fyrir það að einskorðast eingöngu við gerðarbeiðanda er að sá hefur mætingarskyldu við fyrirtöku en ekki aðrir og með þessu telst hann þá vera mættur og er mjög mikilvægt að taka það fram. Og vegna þeirrar fyrirspurnar sem hv. þingmaður kemur hér með á þetta einungis við um fyrirtökubeiðni en ekki uppboð á eign til að mynda.

Þetta er einungis upphafið, fyrirtakan sjálf, og einfaldar sýslumönnum að fylgja fyrirmælum vegna Covid sem sett hafa verið og draga úr óþarfa viðveru á skrifstofu sýslumannsins. Að jafnaði mæta fáir gerðarþolar við fyrirtökur eða uppboðsmál hjá sýslumanni en það verður auðvitað enn þá tækt og verður að tryggja að þegar þeir mæta t.d. án lögmanns fái þeir réttar upplýsingar um réttarstöðu sína. Það verður að vera tryggt og hjá þeim sem þurfa að mæta. Það er mikilvægt að þessi réttur sé fullnægjandi og sér í lagi ef þeir eru ekki með lögmann með sér, að tryggt sé að leiðbeiningar séu skýrar um réttarstöðu þeirra.

Síðan verð ég að nefna af hverju þetta er að koma fram núna, hvort það sé ósanngjarnt eða með einhverjum hætti ótækt að verið sé að gera þetta rafrænt á þessum tíma. Að sjálfsögðu ekki. Hér er markmiðið einungis að gera sýslumönnum mögulegt að sinna skyldum sínum. Það er líka verið að tryggja skuldurum ýmis úrræði, m.a. vegna greiðsluerfiðleika, og ég bendi á að frumvarpið tekur á slíku. Þær skuldir sem nú er verið að fullnusta eiga ekki rætur að rekja til kórónuveirufaraldursins. Þetta tekur oft marga mánuði og á sér mjög langan aðdraganda og það er ekki hægt að segja að það sem verið er að fara í núna og verið að gera rafrænt, hafa möguleika á fjarfundabúnaði, sé með einhverjum hætti vegna einhverra nýrra mála sem komið hafa upp nú um stundir vegna kórónuveirufaraldursins.