150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:00]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir þetta ágæta frumvarp sem ég verð að hrósa fyrir af því að ég held að það væri mjög gott að við reyndum að koma stjórnsýslunni og stjórnkerfinu meira inn í nútímann en nú er.

Þann 14. desember 2018 varð að lögum heimild til rafrænna þinglýsinga og reglugerð þess efnis var samþykkt og staðfest í apríl í fyrra en enn í dag er ekki hægt að fara og láta þinglýsa skjölum rafrænt hjá sýslumannsembættunum úti um allt land. Það er næstum því eitt og hálft ár síðan þetta varð að lögum og ár síðan reglugerð var samþykkt um hvernig ætti að fara að þessu en ekkert gerist hjá embættunum. Maður veltir fyrir sér hvort embættin sem eiga að taka núna við þessu frumvarpi séu burðug til að standa í einhverjum breytingum, jafnvel breytingum sem auðvelda mjög störf þeirra. Samkvæmt svörum frá sýslumannsembættinu er það mál fast í einhverjum vinnuhópi eða stýrihópi. Það virðist lítið þokast.

Þá vil ég spyrja aðeins út í frumvarpið, hvort ekki hafi komið til greina að gera einnig breytingar á hjúskaparlögum þannig að fólk geti hreinlega farið inn á rafrænt Ísland og sótt um hjónaskilnaði þar vegna þess að það hefur ákveðin réttaráhrif um leið og sótt er um skilnað, það verða ákveðin réttaráhrif bara við umsóknina. Í dag þarf að bíða mánuðum saman eftir fyrsta viðtali hjá fulltrúa og það getur ótrúlega margt gerst á þeim tíma, sérstaklega þegar um er að ræða mjög erfiðar aðstæður milli hjóna. Þá finnst manni hart að stjórnsýslan komi í veg fyrir eðlileg réttaráhrif þegar fullorðið fólk er að krefjast skilnaðar.