150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svaraði sirka sömu spurningu hér áðan. (JÞÓ: Nei.) Mikilvæg réttindi eru í húfi og við gerum okkur öll grein fyrir því. Breytingarnar í þessu frumvarpi auðvelda kröfuhöfum hvorki eitt né neitt. Það er bara verið að auðvelda sýslumönnunum að rækja verkefni sín samkvæmt lögum. Nefndin mun vinna þetta mál og leggja til einhverjar breytingar, gott og vel, en ég fór yfir það áðan að verið er að reyna að tryggja gerðarbeiðanda rétt til fullnægjandi leiðbeininga frá sýslumanni um réttarstöðu sína, að hann sé tryggður, og það er auðveldara að gera það þegar manneskjan mætir en í gegnum fjarfundabúnað.

Það er alveg sjálfsagt að skoða þetta en þó er mikilvægt að halda því til haga að ekki er verið að auðvelda kröfuhöfum neitt heldur þvert á móti verið að koma til móts við ýmis atriði og ýmis úrræði vegna greiðsluerfiðleika, til að mynda hjá skuldurum. Það er aðeins verið að leggja til fjarfundaform sem möguleika til að sýslumenn geti rækt verkefni sín samkvæmt lögum og ekki verið að auðvelda kröfuhöfum.

Frumvarpið var unnið í miklum flýti. Það hefur þurft að breyta ýmsum lögum og alltaf eru að koma upp ný atriði sem við sjáum að þarf að bregðast við vegna samkomutakmarkana og fjarlægðartakmarkana. Það var því lítið samráð haft við vinnslu frumvarpsins.