150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má ítreka að 10. gr., þar sem kemur fram að til 1. október 2020 verði heimilt að taka mál fyrir í gegnum síma eða fjarfundabúnað og bjóða upp á rafræna meðferð mála, á auðvitað líka við um gerðarþola. Þeir geta sent gögn sín inn rafrænt. Þeir geta tekið þátt í rafrænni málsmeðferð málsins þótt aðeins sé kveðið á um að gerðarbeiðandi þurfi að vera mættur, þar sem fjarfundabúnaður er nýttur, en ekki hinn aðilinn. Ég er margbúin að útskýra af hverju það varð niðurstaðan. Nefndin mun auðvitað skoða þetta og ég hef í rauninni ekki miklu við það að bæta öðru en að breytingarnar varða bara verklag við fyrirtöku. Það er ekki verið að tryggja kröfuhafa nein aukin réttindi gegn gerðarþola.

Lagðar eru til ýmsar breytingar sem tryggja réttindi skuldara í greiðsluerfiðleikum. Við verðum að gera ýmsar breytingar. Sumar þeirra verða til bráðabirgða en munu kannski reynast vel eða þurfa að taka breytingum og við viljum gera breytingar til framtíðar sem eru með þessum hætti. Hérna er verið að leggja til rafræna málsmeðferð vegna Covid og þeirra takmarkana sem uppi eru og hún á að gagnast öllum, (Forseti hringir.) óháð því hvaða aðili á í hlut.