150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Eitt gott kom út úr andsvörum við hæstv. dómsmálaráðherra áðan að frumvarpið ætti að tryggja rétt allra þó að það virðist ekki vera í frumvarpstextanum, eins og kemur fram í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna við frumvarpið. Það var meining ráðherra að allir sætu við sama borð þannig að ekki væri bara verið að skapa kringumstæður, rafrænar lausnir, fyrir kröfuhafana, fjármálafyrirtækin, það væri líka verið að gera það þannig að allir stæðu jafnfætis, allir sætu við sama borð, þ.e. heimilin varðandi fyrirtökur. Það verður að gæta að því í allsherjar- og menntamálanefnd að það skili sér raunverulega inn í frumvarpið. Hagsmunasamtök heimilanna eru með sérfróða aðila hvað það varðar og geta þá komið fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Vonandi að nefndin kalli þá fyrir til að koma með breytingartillögur. Svo eru aðrar breytingartillögur sem skipta máli.

Mig langar að lesa umsögnina þannig að fólk sem hlustar heima hafi þetta bara á hreinu um hvað erindi Hagsmunasamtaka heimilanna snýst sem, eins og ráðherra sagði, ekki var talað við í þessu ferli sem hafi verið hratt, þannig að ekki var leitað umsagnar hjá þeim og hjá flestum öðrum var ekki leitað umsagnar. Ferlið gekk svo hratt.

Í umsögn sem Hagsmunasamtök heimilanna sendu inn í dag segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum til að heimila ýmist varanlega eða til bráðabirgða rafræna málsmeðferð og notkun fjarfundabúnaðar við fyrirtökur mála af ýmsu tagi. Þar sem víðtækar hömlur eru nú á samkomum og samskiptamöguleikum eru þetta eðlileg og nauðsynleg tímabundin viðbrögð, sem Hagsmunasamtök heimilanna eru almennt fylgjandi.“

Þarna sést að ef þetta er gert á þann hátt og allir sitji við sama borð sýnist mér Hagsmunasamtök heimilanna ekki vera á móti því og jafnvel almennt fylgjandi.

En þó vil ég aðeins bæta við. Í samtali mínu við starfsmann Hagsmunasamtaka heimilanna kom fram að forgangsröðunin þarna er kannski ekki sú besta. Kannski væri betra að fara fyrst af stað með einhverjar lausnir eins og í öðrum löndum þar sem nauðungarsölur hafa verið frystar eða bannaðar. Við vitum að það sem við stefnum inn í er að sumir í þessu samfélagi munu ekki geta greitt af lánum, geta lent í þröng, geta lent í því að heimilið fer á nauðungarsölu. Það hefði kannski verið gott að koma fyrst með frumvarp hvað það varðar að verja heimilin fyrir nauðungarsölum áður en menn fara í þetta. (Dómsmrh.: Búið að bjóða að frysta lán.) Búið að bjóða að frysta lán, segir hæstv. dómsmálaráðherra. Ekki heimilunum, eða hvað? Já, ókei. Það fór alveg fram hjá mér. Ég þarf greinilega að skoða þetta betur. En það er áhugavert, dómsmálaráðherra segir jú. Búið að bjóða upp á það. Gott.

Ég held áfram með umsögnina, með leyfi forseta:

„Engu að síður verður ekki hjá því komist að gagnrýna harðlega 10. gr. frumvarpsins um aðfarargerðir og 12. gr. þess um nauðungarsölur. Báðar eru þær orðaðar þannig að heimilt verði að taka mál fyrir með gerðarbeiðanda í gegnum síma eða fjarfundabúnað og að það jafngildi því að gerðarbeiðandi sé sjálfur viðstaddur fyrirtökuna í skilningi laganna. Ekkert er minnst á gerðarþolanda í þessu sambandi eða hvernig tryggja skuli möguleika hans á aðkomu að fyrirtöku til að gæta réttar síns.“

Að einhverju leyti kom ráðherra inn á þetta áðan og sagði að það eigi að vera jafnræði, bæði hjá fjármálafyrirtæki eða gerðarbeiðanda og svo hjá heimilum. Það þarf þá að passa að það skili sér inn í frumvarpið í meðferð nefndarinnar. Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Gætir að því leyti ósamræmis við orðalag 11. gr. um fyrirtökur í kyrrsetningar- og lögbannsmálum, þar sem er ekki gerður neinn slíkur greinarmunur á gerðarbeiðanda og gerðarþola.“

Það þarf að taka tillit til þessa í samræmi við orð dómsmálaráðherra áðan, það átti að vera tilgangurinn, að jafnræði ætti að vera.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Jafnframt skortir algjörlega útfærslu á því hvernig staðið skuli að framkvæmd fjarfundar í slíkum tilfellum, svo sem hvaða fjarfundabúnað megi nota, hvernig aðgengi gerðarþola að þeim búnaði verði tryggt, hvernig kröfur um persónuvernd, þar með talið um samþykki, verði uppfylltar o.s.frv.“

Ég trúi ekki öðru en að allsherjar- og menntamálanefnd taki vel á þessu og hún fær alveg örugglega stuðning ráðuneytisins til að útfæra það. Hæstv. dómsmálaráðherra mun eflaust — er hún ekki að fylgjast með núna? Ókei, hún er að hlusta.

„Enn fremur er 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins stórgölluð. Hún kveður á um framlengingu á tilteknum tímafrestum ef ekki er hægt að fylgja þeim sökum óyfirstíganlegrar hindrunar, en þeir frestir eru allir í þágu gerðarbeiðanda.“

Ég reyndi að koma inn á þetta áðan, en hæstv. dómsmálaráðherra hefur svarað því að allir eigi að standa jafnfætis hvað þetta varðar. En svona er þetta í frumvarpinu. Ég ætla bara að taka dómsmálaráðherra á orðinu, hugmyndin var að allir ættu að standa jafnfætis. Ef nefndin lagar það þá er það eitthvað sem ætti að renna ljúft í gegnum þingið. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Ekkert er hins vegar minnst á tímafresti sem gerðarþoli hefur hagsmuni af, svo sem frest til að koma fram mótmælum eða til að bera ágreiningsefni undir dómstóla.“

Þetta er eitthvað sem myndi þurfa að koma inn — ég sé að dómsmálaráðherra kinkar kolli — til að eignarréttur beggja aðila sé virtur og allir sitji við sama borð.

„Um þessar mundir sjá tugþúsundir heimila fram á algjöra óvissu og mjög erfiða fjárhagslega stöðu á komandi mánuðum, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Þess vegna hafa stjórnvöld í mörgum löndum, þar á meðal Bandaríkjunum, fyrirskipað algjöra stöðvun á öllum nauðungarsölum þar til þetta ástand verður yfirstaðið. Á sama tíma leggur dómsmálaráðherra Íslands fram frumvarp sem er beinlínis að greiða götu kröfuhafa til að framkvæma aðfarir og nauðungarsölur á auðveldari hátt en nokkru sinni fyrr og hunsar margítrekað ákall Hagsmunasamtaka heimilanna um að stjórnvöld tryggi að ekki einn einasti íbúi landsins þurfi að missa heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldursins.“

Ég heyrði hæstv. dómsmálaráðherra kalla hér áðan að það ætti veginn að bregðast við þessu. Það væri ágætt að dómsmálaráðherra hugi að því að koma í andsvar og svara því hvaða aðgerðir hún er með í pípunum til að bregðast við þessu eða hvort eitthvað hafi komið fram sem hefur farið fram hjá mér um að bregðast við þessum áhyggjum.

„Þær tillögur sem gerðar eru í umræddum ákvæðum frumvarpsins eru hreinlega fáránlegar á þessum tímapunkti, svo ekki sé minnst á þá gjörsamlega óverðskulduðu þjónkun við gerðarbeiðendur og grófu mismunun í garð gerðarþola sem birtist í orðalagi þeirra.“ — Komið hefur fram að þetta á að laga.

„Hagsmunasamtök heimilanna ítreka þá sjálfsögðu kröfu sína að nauðungarsölur og aðfarargerðir þar sem gerðarþoli er neytandi, verði stöðvaðar til næstu áramóta eða að minnsta kosti svo lengi sem í gildi eru einhver fyrirmæli um samkomutakmarkanir samkvæmt sóttvarnalögum.“ — Það er áhugavert að heyra hvernig hæstv. dómsmálaráðherra tekur í þessa tillögu. — „Heimilin verða að fá fullvissu fyrir því að öryggi þeirra verði tryggt á þessum óvissutímum og í því sambandi er ekki síður mikilvægt hvaða skilaboð stjórnvöld senda frá sér með aðgerðum sínum. Þetta snýst ekki eingöngu um fjárhagslega hagsmuni heldur einnig um vernd mannréttinda og lýðheilsu þar sem langvarandi áhyggjur og kvíði geta leitt til alvarlegra heilsufarslegra og félagslegra vandamála.“

Réttur fólks til heimilis er náttúrlega mannréttindi, það kom mjög fram þegar nauðungarsölurnar stóðu yfir eftir hrunið. Réttur neytenda og réttur heimilisins var mjög sterkur og er mjög sterkur í evrópskum rétti sem var innleiddur á Íslandi, þannig að það er líka vinkill. Hæstv. dómsmálaráðherra er ráðherra mannréttindamála á Íslandi og væri því áhugavert að heyra hvaða afstöðu hún hefur til þessa, hvort heimili sé bara varið að eignarréttinum eða hvort það sé líka varið út frá mannréttindasjónarmiðum, eins og mannréttindasáttmáli Evrópu, sem hefur verið innleiddur í íslensk lög, kveður á um og hefur verið dæmt eftir af evrópskum dómstólum að gildi. Heimilið er varið mannréttindum.

„Að öðrum kosti krefjast samtökin þess að frumvarpi þessu verði breytt þannig að hið minnsta verði gerður áskilnaður um að mál samkvæmt lögum um aðför eða nauðungarsölu verði ekki tekið fyrir í gegnum síma eða fjarfundabúnað nema gerðarþoli veiti upplýst samþykki sitt. Í því sambandi má hafa til hliðsjónar kröfur laga um persónuvernd um samþykki hins skráða. Það er engum bjóðandi að búa við áhyggjur af því að kröfuhafar geti gert fjárnám í eignum sínum og komið af stað nauðungarsölu á heimili sínu, með einföldu símtali án samþykkis og aðkomu sinnar.“

Mér sýnist að aðkoman verði tryggð samkvæmt því sem dómsmálaráðherra segir að allir eigi að halda sínum fulla rétti og hafi fullan rétt á sömu aðkomu að málum með þessum rafrænum lausnum.

„Enn fremur krefjast samtökin þess að 3. mgr. 12. gr. verði breytt þannig að sú framlenging tímafresta sem þar er gert ráð fyrir, geti einnig átt við um tímafresti vegna atvika sem geta varðað gerðarþola og sambærilegt ákvæði bætist við 10. gr. Þar á meðal má nefna frest til að andmæla frumvarpi til úthlutunar söluverðs samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga um nauðungarsölu og fresti til að leita úrlausnar dómstóla um ágreiningsefni samkvæmt XV. kafla laga um aðför eða eftir atvikum XIII.–XIV. kafla laga um nauðungarsölu, auk annarra tímafresta sem settir eru í viðkomandi lögum.“

Og að lokum, með leyfi forseta:

„Rökin fyrir ofangreindu eru öll þau sömu og í greinargerð með frumvarpinu nema auk þess að teknu tilliti til stjórnarskrárbundinnar jafnræðisreglu og réttlátrar málsmeðferðar, þannig að það sem þar kemur fram um að gætt hafi verið að samræmi við stjórnarskrá og ekki verði séð að frumvarpið geti haft neikvæð eða íþyngjandi áhrif fyrir almenning, samræmist raunverulegu efni frumvarpsins.“

Það væri gott ef hæstv. ráðherra kæmi í stutt andsvar til að svara því hvað hún eða ríkisstjórnin hefur í hyggju eða hvort nú þegar hefur tryggt að hægt sé að stoppa nauðungarsölu eða stoppi að fólk missi heimili sín, ég man ekki nákvæmlega hvernig ég orðaði það. Er eitthvað í pípunum hjá ríkisstjórninni varðandi það að fólk missi ekki heimili sín? Nauðungarsölur voru frystar vegna efnahagshrunsins og var gert ítrekað. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi hæstv. ráðherra innanríkismála, þá dómsmálaráðherra, sinnti þessum málaflokki. Hún lagði fram frumvarp um að fresta nauðungarsölum. Nú er verið að leggja til að ferðaþjónustufyrirtæki geti lagst í dvala, þurfi ekki að borga neitt. Búið er að tryggja alls konar brúarlán og svoleiðis til fyrirtækja. En hvað um heimilin, að einstaklingar og fjölskyldur missi ekki heimili sín sökum aðfarar gegn þeim? Hefur ráðherra í hyggju að leggja fram tillögu um að takmarka tímabundið nauðungarsölur ef sannað er að það ástand sé til komið vegna faraldursins?