150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þau mál sem eru komin það langt í dag að þau lenda í nauðungarsölu eru að öllum líkindum ekki Covid-mál núna en þau verða það eflaust. Þetta mun kosta samfélagið og ríkissjóð mikið, það er komið upp í 300 milljarða sem við höldum að þetta kosti. Fólk er að missa vinnuna og þeir sem fara á hlutabætur ná upp í 90% af launum sínum, strax farin 10%, sumir sem missa vinnuna alveg fá miklu minna. Íslendingar eru ekkert sérstaklega framsýnir þegar kemur að því að passa upp á það, eins og íhaldssamari Evrópuþjóðir, að hafa greiðslugetu í sex mánuði eða eitthvað svoleiðis. Það er mjög líklegt að margir lendi í greiðsluvanda sem mun þýða á endanum að þeir gætu misst heimili sín. Hæstv. dómsmálaráðherra nefnir úrræðið varðandi frystingu á lánum — eru einhver göt þar? Hve lengi á þetta að vara?

Það sem ég er í raun að fiska eftir er hvort hæstv. dómsmálaráðherra hafi í hyggju að gefa út einhverjar yfirlýsingar eins og sum önnur ríki hafa gert, vera kannski varkár með það, og segja varðandi þau mál þar sem einstaklingar og fjölskyldur gætu misst heimili sín og má sannarlega rekja til þessa faraldurs sem við erum í, að það verði einhvers konar leið til þess að það fólk missi ekki heimili sín á nauðungarsölu, það séu einhverjir tímafrestir, fólki verði gefið meira svigrúm, eins og óskað hefur verið eftir hjá ferðaþjónustunni og mörgum öðrum, til að koma undir sig fótunum til að geta farið að greiða af lánum o.s.frv. Er þetta eitthvað sem dómsmálaráðherra gæti a.m.k. skoðað, fordæmin frá hruninu?