150. löggjafarþing — 91. fundur,  20. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

722. mál
[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða mál sem hæstv. ráðherra mælti fyrir í dag og er að mörgu leyti jákvætt. Ég tek undir með þeim sem telja að það mætti skýra betur muninn á kröfuhöfum og öðrum. Mig langar að taka undir með þeim sem hafa sagt að það væri gaman að sjá frumvarp sem tæki á því að fresta nauðungarsölum. Vissulega er rétt að það sem á að bjóða upp á morgun hefur ekki komið til vegna þessarar veiruskammar sem er að hrjá okkur, en það er hætta á því að það komi síðar og þá eigum við að vera undir það búin.

Mig langar líka að koma inn á annað. Hér hefur verið rætt um frystingu lána. Ég hef fylgst aðeins með þessu og ég fæ ekki séð að verið sé að frysta nokkurt einasta lán. Það er hins vegar verið að veita greiðslufresti á lánum og veita greiðsluskjól. En afborganir og vextir bætast á höfuðstól þannig að þeir sem fá þennan frest og þetta skjól þurfa að borga það síðar. Það er það sem verið er að gera. Það er rauninni ekki verið að frysta eða fella niður nokkurn skapaðan hlut heldur aðeins verið að ýta því aðeins aftar. Mér sýnast flestar fjármálastofnanir veita frest í þrjá mánuði til að byrja með og þá veltir maður fyrir sér hvernig staðan verður eftir þrjá mánuði hjá þeim sem þurfa á því að halda í dag í ljósi þess að það er hætta á að sú staða sem við búum við í dag verði langvinn. Það er villandi að mínu viti að tala um frystingu þótt vissulega sé búið að veita greiðslufrest hjá ákveðnum aðilum.

Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að vekja athygli á því að svo virðist sem í máli þessu sé ekki eingöngu verið að ræða um atriði sem tengjast Covid-veirunni. Hér eru í það minnsta fjögur, fimm atriði, fjórar, fimm breytingar sem eru til lengri tíma. Þetta er ekki eitthvað sem á aðeins að gilda, eins og stendur í flestum greinum frumvarpsins, til 1. október 2020 heldur virðist vera sem það eigi að breyta ákveðnum hlutum til frambúðar. Ég held að það séu mistök að leggja fyrir þingið mál sem búið er að viðurkenna að hafi verið unnið mjög hratt og ætlast til þess á sama tíma að það fari mjög hratt í gegnum þingið af því að um er að ræða breytingar til langframa.

Ég vil hvetja nefndina sem fær þetta mál til meðferðar til að setja slíkar tímatakmarkanir á allar greinar málsins. Það er ekkert ósanngjarnt að fara fram á það ef á að breyta lögum til lengri tíma að gefinn sé nægur tími til umfjöllunar um málið í þinginu og í nefndum og kallaðir til fleiri aðilar en væntanlega hefur verið gefinn kostur á núna o.s.frv. Við getum alveg lifað við það tímabundið að þurfa að hraða málinu í gegnum þingið út af þeim aðstæðum sem eru uppi, en mér finnst ekki ganga upp að verið sé að leggja til eitthvað um aldur og ævi sem á svo að fara í gegnum þingið á slíkum hraða. Það er einfalt að láta allar þær lagagreinar sem um ræðir í þessu frumvarpi gilda með sömu dagsetningunni, til 1. október 2020. Það ætti ekki skemma málið að neinu leyti og myndi örugglega liðka til og jafnvel flýta fyrir afgreiðslu þess í þinginu.

Virðulegur forseti. Það var fyrst og fremst þetta sem ég vildi koma að, að hluti greinanna sé ekki ótímasettur heldur hafi takmarkanir eins og aðrar greinar.