150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Fyrst er rétt að geta þess að sá aðgerðapakki sem ríkisstjórnin leggur fram í dag er um margt mjög ágætur, sérstaklega þær félagslegu áherslur sem birtast í ýmsum aðgerðum. Þær virka kannski litlar og léttvægar en atriði eins og að veita fjármagn til tómstundastyrkja til barna á tekjulágum heimilum er stór aðgerð til að vinna gegn barnafátækt. Hér náum við á köflum að slá tvær flugur í einu höggi, að milda áfallið vegna Covid en byggja á sama tíma betra samfélag. Ég verð samt að viðurkenna að tillögurnar eru talsvert minni en ég hafði reiknað með. Kannski var það bara meinloka í mér en ég sá alltaf fyrir mér að aðgerðapakki tvö yrði jafnvel stærri en aðgerðapakki eitt í ljósi þess að vandinn hefur birst okkur sem enn dýpri og meira langvarandi en fyrst var talið. Þess vegna er ekki mjög mikið að bæta þriðjungi ofan á aðgerðapakka eitt. Í aðgerðapakki tvö er ekki nema þriðjungur af þeim fjármunum sem voru í fyrsta pakkanum.

Svo opinberast í gögnum málsins eitthvað sem við rekum okkur oft á en veldur vissum áhyggjum þegar við erum að takast á við erfitt ástand eins og núna. Það er hversu lítil geta virðist oft vera hjá stjórnvöldum til djúprar greiningar á ástandi eða afleiðingum mögulegrar lagasetningar. Þetta er einna skýrast varðandi kynjasjónarmiðin vegna þess að það er hreinlega orðað í greinargerð málsins. Í gær birtist viðtal við hæstv. forsætisráðherra sem sagði að það skipti miklu máli að við hefðum kynjasjónarmið að leiðarljósi í viðbrögðum okkar við Covid-19 og tryggðum að þessi kreppa ylli ekki bakslagi í kynjajafnréttismálum. Þetta vitum við. Þetta þekkjum við frá kreppunni eftir hrun 2008 að skiptir miklu máli. Engu að síður kemur fram í greinargerð með frumvarpi til fjáraukalaga að aðeins félagslegar aðgerðir pakkans hafi verið metnar út frá áhrifum á jafnrétti kynjanna, aðeins félagslegar aðgerðir. Æskilegt hefði verið að meta aðrar aðgerðir með sambærilegum hætti, stendur í greinargerðinni, en það er ekki bara æskilegt heldur hefði þurft að gera það. Við hefðum ekki átt að fá þetta í hendurnar nema það væri greint. Þetta er mikið grundvallaratriði varðandi það hvernig við úthlutum opinberu fé, sérstaklega í krísuástandi.

Það hefur mikið verið rætt um samráð og samráðsleysi í tengslum við aðgerðir stjórnvalda og það kemur í ljós ákveðin aðferðafræði varðandi samráð við stjórnarandstöðuna í þessu plaggi. Hún felst í því að endurvinna hugmyndir stjórnarandstöðunnar mánuði eftir að þær hafa verið lagðar fram sem breytingartillögur og felldar af stjórnarliðum en kannski draga aðeins úr metnaðinum sem birtist á þeim tíma. En engu að síður eru þetta góðar hugmyndir og þær eru komnar inn í plaggið núna, eins og t.d. álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks þótt hópurinn hafi bæði verið þrengdur og heildarframlögin minnkuð frá því sem minni hlutinn lagði til fyrir nokkrum vikum. Eins er jákvætt að hér sé stuðningur við nýsköpun í matvælaframleiðslu þó að reyndar vanti þau skýru grænu markmið sem voru í breytingartillögum minni hlutans á sínum tíma. Svo er ágætt að vera með þessa auknu áherslu á nýsköpun sem er á nokkrum stöðum í hagkerfinu. Í pakkanum eru ýmsir gamlir kunningjar, bæði sem við þekkjum úr tillögum stjórnarandstöðu við fyrri aðgerðapakka en líka verkefni sem nýttust vel á árunum eftir hrun fyrir áratug þannig að við erum að grípa til verkfæra sem við oft og tíðum þekkjum ágætlega og vitum að virka.

Varðandi samráð og samtal almennt mætti velta fyrir sér hvers vegna ekki er rætt meira við almenning og aðstandendur fyrirtækja, smærri rekstraraðila í ferðaþjónustu t.d., varðandi það hvaða aðgerðir þarf til að bregðast við aðstæðum þeirra. Ég vona að ekki sé litið á það sem ásættanlegan fórnarkostnað að það verði fjöldagjaldþrot í ferðaþjónustunni ef hægt er að komast hjá því. Þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem bent hefur verið á, síðan tillögurnar komu fram, að njóti ekki nægilegs skjóls í þessum aðgerðum eru oft lítil fjölskyldufyrirtæki vítt og breitt um landið sem stunda nýsköpun í ferðaþjónustu og standa nú frammi fyrir fordæmalausu tekjufalli sem verður að bregðast við á einhvern hátt. Lokunarstyrkir fyrir fyrirtæki sem hefur verið gert að loka vegna lagafyrirmæla eru góðar fyrir sinn hatt. En hvernig hjálpum við t.d. öllum litlu gististöðunum og veitingahúsunum í kringum Alþingishúsið, litlu gistiheimilunum úti um landið? Þetta væri til að mynda hægt að leysa með því að setja á fót átakshóp, kalla saman einhverja tugi fólks úr stéttinni, setjast með þeim inn í Stjórnarráðið og spyrja: Hvað er það sem þarf? En það virðist ekki hafa verið gert. Síðan er það samráð milli stjórnarflokkanna eða hvað eigum við að kalla það, samstuð, togstreitu. Það er eftirtektarvert að ferðamálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýti tækifærið til að koma á laggirnar tveimur nýjum einingum, annars vegar Kríu fjárfestingarsjóði og hins vegar matvælasjóði, til þess að koma þeim fjármunum sem eru í aðgerðapakkanum í vinnu á meðan hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fær ekki að klára fullbúið frumvarp um stuðning við einkarekna fjölmiðla til að koma peningum í vinnu í þágu þeirra. Hún þarf að fara þá hjáleið að veita stuðninginn með reglugerð þetta árið, einfaldlega vegna þess að það næst ekki samkomulag milli flokkanna sem mynda saman ríkisstjórn. Allir aðrir hér á þingi eru löngu tilbúnir að afgreiða frumvarp ráðherra sem situr fast í allsherjar- og menntamálanefnd en þar strandar á samherjum í ríkisstjórninni.

Svo virðist eitthvað skorta á það að ræða við sveitarfélögin, sérstaklega varðandi þær aðgerðir þar sem hreinlega er gert ráð fyrir mótframlagi frá þeim. Hér erum við að endurvekja hið ágæta verkefni Sumarstörf fyrir námsmenn, sem reyndist vel á árunum eftir hrun. Það á að geta skapað 3.000 störf ef sveitarfélögin koma að borðinu. Sveitarfélögin kalla hins vegar eftir auknum fjármunum til að standa undir grundvallarþjónustu sveitarfélaganna. Hér þarf að ræða við sveitarfélögin til að sjá hvort þar sé yfir höfuð borð fyrir báru og í því samtali þurfum við að hefja okkur upp fyrir þá skýru aðgreiningu sem oft virðist vera á milli ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að fjármunum. Við erum öll á sama báti og það er engin þolinmæði fyrir karpi um það hvort ríki eða sveitarfélög eigi að standa straum af kostnaði við eitthvað sem er í þágu alls almennings.

Hvað varðar þá áherslu sem er á nýsköpun og rannsóknir í aðgerðapakkanum þá brennur dálítið við að þær séu á forsendum fyrirtækja sem snúa hjólum atvinnulífsins. Það vill oft verða. Þetta eru framleiðslugreinar, þetta eru tæknigreinar. Þetta eru öllu heldur ekki greinar eins og hugvísindi, félagsvísindi og menntavísindi sem skipta samt sköpum þegar kemur að t.d. því markmiði sem stuðningur við fjölmiðla á að þjóna, að sinna upplýsinga- og lýðræðishlutverki. Það er líka nýsköpun í menntavísindum. Það er nýsköpun í öllum þessum greinum. Farvegurinn sem við höfum til staðar fyrir nýsköpun í þessum greinum er t.d. Rannsóknasjóður sem fékk 30% aukningu í aðgerðapakka eitt, sem er samt varla upp í nös á ketti fyrir sjóð sem var ekki með nema 14% árangurshlutfall umsókna á síðasta ári. Ef við setjum þá aukningu í samhengi er hún 700 milljónir á meðan hér er verið að leggja til að hámarksendurgreiðsla vegna nýsköpunarkostnaðar til eins fyrirtækis sé 900 milljónir. Öll viðbót til Rannsóknasjóðs er lægri en það sem hið opinbera er tilbúið til að láta eftir til fyrirtækis á markaði. Síðan má velta fyrir sér hvort sú leið ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að veita nýsköpunarpeninga í gegnum sjóð sem ekki hefur verið stofnaður sé endilega skilvirkasta leiðin til að koma þeim fjármunum til starfa, hvort það ætti frekar að líta á apparat eins og atvinnuþróunarfélög til að koma þessu út í feltið sem fyrst.

Þá langar mig rétt að nefna það sem hefur borið aðeins á í umræðunni hérna, sóknarfærið sem felst í því að fjölga opinberum störfum. Þetta er ekki út af einhverjum kreddum varðandi það að ríkið eigi að vera stórt eða ríkið eigi að vera lítið heldur er bara horfst í augu við þá staðreynd að ríkið er nú þegar að greiða stórum hópi fólks laun og mun gera það a.m.k. út þetta ár. Við erum að tala um að í dag eru 35.000 manns á hlutabótum og önnur 15.000 á fullum atvinnuleysisbótum. Það mætti taka módelið sem Sumarstörf fyrir námsmenn byggir á, sem er að kalla eftir hugmyndum frá stofnunum að átaksverkefnum sem væri hægt að ráða fólk í. Það væri hægt að útvíkka þetta fyrir tímabundna fjölgun opinbers starfsfólks. Fullt af stofnunum hefði gott af því að fá nokkra starfsmenn í eitt eða tvö ár til að vinna átaksverkefni og koma þjónustunni upp á ákveðið plan. Það væri hægt að kalla eftir ótal mörgum hugmyndum frá stofnunum vítt og breitt um landið til þess að koma fólki einfaldlega af atvinnuleysisskrá í það að vinna samfélaginu gagn. Síðan þarf að greina hvar má fjölga opinberu starfsfólki varanlega til þess að styðja við ýmsa grunninnviði samfélagsins. Við vitum svo sem vel hvar skórinn kreppir helst, ég nefni hjúkrunarfræðinga og kennara. Það eru tvær stéttir sem vantar fleiri hendur inn í þau kerfi sem þær standa undir. Hérna þurfum við að hafa hugfast að græn uppbygging er ekkert bara Tesla og Carb fix og einhverjar tæknilausnir. Græn uppbygging er líka að vera með metnaðarfulla, vel launaða og vel menntaða kennara á öllum skólastigum því að með því byggjum við upp samfélag framtíðarinnar. Græn uppbygging er að vera með ókeypis og öflugt heilbrigðiskerfi, að vera með námsstyrki, að styðja fólk til mennta þannig að öryggisnet einstaklinga byggi ekki á fjárhagslegri stöðu þeirra í samfélaginu. Hérna eru gríðarleg sóknarfæri og ég vona að fjármálaráðherra vindi ofan af þeirri kreddufestu sem heyrðist frá honum í umræðunni fyrr í dag gagnvart því að það væri mesta fásinna að fjölga opinberum störfum á tíma þegar ríkið er bara, takk fyrir, farið að borga laun stórs hluta vinnumarkaðarins.

Mig langar að nefna örstutt að það er farið virka eins og vanti á köflum heildarsýn til þess að aðgerðir fari ekki að vinna gegn markmiðum annarra aðgerða. Þá langar mig að nefna eitt dæmi: Leggjum til hliðar þá aðför að neytendavernd sem felst í því að fólk fái ekki endurgreiðslu vegna ferða heldur eigi að fá inneignarnótu. Hvaða áhrif hefur það á ferðalög innan lands? Ef fjölskylda sem keypti sér á raðgreiðslum ferð í sólina í janúar og er enn að borga af henni fær inneignarnótu núna er hún ekkert að fara að ferðast innan lands. Það er ekki eins og hún eigi aðra milljón á lager til að leggja í það ferðalag (Forseti hringir.) eftir að hafa lagt eitthvað svipað í fjölskylduferðina í sólinni. Þetta er ég hræddur um að sé einhvers konar ríkisbubbablindni, (Forseti hringir.) að halda að fólk úti í samfélaginu sé almennt aflögufært fyrir tveimur utanlandsferðum á ári.(Forseti hringir.) Það er bara alls ekki svo.