150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held einmitt að lykillinn í þessu sé, eins og þingmaðurinn kom inn á, að við erum ekki að tala um að fjölga opinberum störfum starfanna vegna heldur vegna þeirrar þjónustu sem fólk í þeim sinnir. Er það neikvætt að ríkið blási út, eins og það heitir stundum, ef sá vöxtur ríkisins felst í bættu heilbrigði þjóðarinnar, aukinni menntun, aukinni velsæld og hamingju? Það held ég ekki. Við hljótum að komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu með þetta einmitt á þessum tímum þegar stefnir í að gríðarlega stórir hópar fólks sem oft eru með mikla og góða reynslu úr atvinnulífinu gangi um verkefnalausir. Hvort er betra að ríkið verji tugum milljarða í að rétta því fólki atvinnuleysisbætur sem fylgir engin virkni í samfélaginu eða að við nýtum sóknarfærið og bjóðum stórum hópum þessa fólks að sinna gefandi störfum sem bæta samfélagið? Þá má líta á verkefni eins og Brothættar byggðir og atvinnuþróunarfélögin, eins og ég nefndi, og ýmiss konar stuðningsnet sem við eigum vítt og breitt um landið sem mjög skilvirka leið til að ná til þessa fólks til að efla opinbera þjónustu og styðja við nýsköpun í grasrótinni úti um byggðirnar.