150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að þessum skilningi hafi verið komið á framfæri til ráðherra, hvernig ekki megi mistúlka ákall um fjölgun opinberra starfa sem bókstaflega fjölgun starfanna vegna. Ef hæstv. ráðherra vill halda áfram að misskilja það mætti hann vinsamlegast skoða þessi orðaskipti okkar.

Annað sem mig langar að minnast á er inneign í stað endurgreiðslu. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, en það er annar vinkill á því líka sem þarf að athuga og hann snýr að erlendum ferðamönnum sem eiga ferðir á Íslandi. Það er líka farið dálítið illa með þá. Það á að bjarga íslenskum fyrirtækjum þegar kemur að ferðum erlendra ferðamanna hingað þannig að þeir haldi ferðunum sínum hérna í staðinn fyrir að endurgreiða þeim. Mér finnst pínu svínslegt hvernig farið er með þá og það er ekkert ólíklegt að í tengslum við allar þessar ríkisábyrgðir og ýmislegt svoleiðis sem er verið að fara í núna verði einhvers konar samþjöppun í ferðaþjónustu á Íslandi í kjölfarið. Það eru ný fyrirtæki sem eru ekki endilega með sömu skuldbindingar gagnvart inneignarnótum eða hvernig sem það er. Þetta væri mjög illa gert af okkur gagnvart þeim sem eru að reyna koma hingað að heimsækja landið og hafa borið uppi efnahagsvöxt undanfarins áratugar.

Gerum betur fyrir þá til að við getum gert betur fyrir okkur.