150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum kannski inneignarleiðina betur undir því máli seinna í dag, en ég verð að viðurkenna að mér finnst stórfurðuleg ákvörðun að velta í rauninni áhættunni af lífvænleika ferðaþjónustufyrirtækja yfir á einstaklinga, yfir á neytendur, yfir á fólk sem er búið að leggja heilmikið fé í að kaupa ferð sem síðan verður ekki farin, í þeirri von að það geti mögulega farið hana á næsta ári. Ef það er vilji til að standa vörð um þessi fyrirtæki með einhverjum hætti, væri ekki hreinlegra að það yrði með beinu inngripi, með því að styrkja þau með beinum hætti frekar en að nota þá hjáleið að vera með opinberan styrk sem er dreift út á þá sem hafa verið í viðskiptum við fyrirtækin á síðustu mánuðum? Það er samfélagsleg nálgun, en ekki það sem ráðherrann leggur til.

Ég tek undir með þingmanninum, ég vona að afstöðu okkar til fjölgunar opinberra starfa sé hér með komið á framfæri við ráðherra. Eins og málin hafa undist á síðustu vikum fáum við kannski að sjá það sem við erum hér að tala um í aðgerðapakka þrjú. Sjáum hvort gangi að vinna úr þessum málum í nefndastörfum hérna á næstu dögum.