150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fjáraukalög 2020, nr. 2. Áhugavert. Í fyrsta hluta var fjallað um nokkur atriði eins og hlutastarfaleiðina, brúarlán til atvinnulífs, frestun skattgreiðslna fyrirtækja, laun í sóttkví, barnabótaauka, úttekt séreignarsparnaðar, styrkingu ferðaþjónustu, útvíkkun á Allir vinna, greiðari innflutning og fjárfestingarátak. Þetta endaði í 25,5 milljörðum. Þar var ekkert um skjól fyrir heimili landsmanna nema óbeint, eins og ráðherra hefur komist að orði, að styrkja fólk og landsmenn óbeint í gegnum fyrirtæki. Engin skilaboð um fjárheimildir fyrir heilbrigðiskerfið. Áherslur sem gagnast fyrirtækjum en ekki fólki á þann hátt að markmiðið virðist vera að allt eigi að vera eins eftir að ástandinu er lokið, allt eigi að vera eins og áður en þetta byrjaði, eins og heimurinn verði einhvern veginn óbreyttur eftir þetta ástand.

Það liggur í augum uppi að þetta svokallaða efnahagskerfi sem við höfum verið að reyna að vinna eftir undanfarna áratugi sem byggir á stöðugleika er alls ekkert svoleiðis. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Það má svo sem taka til gjaldmiðilinn en aðalástæðan er líka hvernig Íslendingar hafa sífellt lagt eggin í sömu körfuna; í sjávarútveg, í álið, í bankaiðnaðinn og núna síðast í ferðamannaiðnaðinn. Við erum með rosalega fábreytni. Svo verðum við rosalega hissa þegar koma sveiflur, sveiflumst eftir þessum fáu körfum. Fjölbreytni hefur verið markmiðið í langan tíma en hefur aldrei náð að raungerast af því að áhersla stjórnvalda hefur aldrei verið á þeim nótum að byggja upp hina svokölluðu fjórðu stoð sem átti að vera nýsköpun. Hún átti að búa til fjölbreytt störf sem eru í rauninni sveiflujafnandi, byggja ekki undir stöðugleika heldur sjálfbærni. Sjálfbærni er mikilvægust því að í því hugtaki felst að geta tekið við áföllum. Að reyna að stilla stöðugleikann á þann hátt að reyna að forðast áföllin gengur einfaldlega ekki. Við verðum að reyna að byggja fram hjá áföllum og gera ráð fyrir því að þau komi á óvæntasta hátt. Það var búið að búast við svona faraldri í þó nokkurn tíma, bara tímaspursmál, var sagt í vísindagreinum. Ef við byggjum okkur upp sem sjálfbært samfélag þá hefðum við t.d. ekki áhyggjur af matvælaframleiðslu. Við hefðum ekki áhyggjur af því að missa þakið ofan af okkur og ef við höfum þak yfir höfuðið og mat í magann er ekkert mikið meira sem við þurfum að hafa áhyggjur af þegar allt kemur til alls.

Í þessum öðrum hluta er fjallað um lokunarstyrki upp á 2,5 milljarða, sem er gott og blessað, ekkert óeðlilegt við það. Það er alltaf spurning um upphæðir og útdeilingu á þeim. Það verður erfitt í framkvæmd, get ég ímyndað mér, og hlakka til að skoða hvernig farið verður með það. Það er talað um stuðningslán með 100% ríkisábyrgð. Það er ekki farið vel yfir það, maður sér ekki upphæðina á bak við það. Hún er væntanlega hluti af þeim 60 milljörðum sem talað hefur verið um í þessum öðrum pakka. Það er mjög erfitt að rekja þá tölu eða reikna hana út eða rökstyðja á nokkurn hátt að hann sé upp á 60 milljarða því að hluti af aðgerðunum er lán sem á að endurgreiða o.fl., vissulega með ríkisábyrgð. En þegar við fjölluðum t.d. um ríkisábyrgð í fyrsta pakkanum kom í ljós að bara á að lána til lífvænlegra fyrirtækja. Á sama tíma er gert ráð fyrir því í útdeilingu ríkisábyrgðarinnar að ansi mikill hluti af henni falli niður og falli á ríkið. Þá spyr maður: Hvernig stenst það ef það á bara að lána lífvænlegum fyrirtækjum? Lífvænleg fyrirtæki geta væntanlega greitt til baka ríkisábyrgðina. Ýmislegt stangast á í þessu, við heyrum eitt en framkvæmdin er síðan önnur. Eftirlitið með þessu öllu verður áhugavert. Það er einmitt sérstaklega mikilvægt í svona ástandi, þegar verið er að taka ákvarðanir í flýti, að vel sé fylgst með því hvernig verður farið með þær fjárheimildir sem hér er útdeilt.

Hér er talað um tekjuskattsjöfnun, það er tiltölulega óljóst en virðist vera ákveðin samtvinning hagnaðar fyrirtækja árið 2019 yfir á 2020, eitthvað því um líkt. Það er óljóst hversu margir milljarðar það eru. Geðheilbrigði og fjarþjónusta upp á 540 milljónir, mjög fínt. Vernd fyrir börn og fjölskyldur upp á 895 milljónir, merkilegt að það skuli ekki hafa komið fyrr. Vissulega var bent á að það sé aukið álag í svona aðstæðum sem kalli á aukna fjárveitingu. En miðað við núverandi fjármagn í þessum málum virðist þetta vera ansi mikið aukaálag og ég giska á að þetta hafi verið vanfjármagnað áður og því sé upphæðin þetta stór. Sérstakur stuðningur við sveitarfélög, sérstaklega Suðurnes, upp á 975 milljónir. Nóg að gera þar, nóg að gera fyrir sveitarfélög hvað varðar tekjustofna þeirra. Við höfum rætt tekjustofna sveitarfélaga ansi oft hérna, þeir eru of litlir miðað við þau verkefni sem þau hafa tekið að sér. Sumarúrræði fyrir námsmenn, þau eru hluti af átaki um virkni á vinnumarkaði upp á 5 milljarða. Það er ágætisúrræði. En mér finnst merkilegt að það sé verið að hvetja til sumarnámskeiða í háskólum og það séu líka atvinnuleysisbætur fyrir námsmenn, deilist aðeins á milli. Jú, vissulega getur fólk valið og kannski munu ekki öll svið í háskólunum eða framhaldsskólum vera með sumarnámskeið, þá virka atvinnuleysisbæturnar, sem er ágætt. Efling matvælaframleiðslu upp á 500 milljónir, það voru tillögur sem komu í breytingartillögum við fyrsta pakkann. Það er fínt að sjá þær þarna. Sókn í nýsköpun upp á 1,8 milljarða. Þetta er loksins að koma, við höfum núna tapað mánuði af því að við lögðum þetta til fyrir um mánuði síðan og hefðum þá getað lagt af stað. Við erum jafnvel að tapa góðum hluta af sumrinu í notkun á þessum peningum. Ég vona að þeir komist fljótt til skila þannig að hægt sé að nýta þá sem fyrst.

Síðast en ekki síst, alls ekki síst og kannski mikilvægast, má ekki gleyma álagsgreiðslum til heilbrigðisstarfsfólks í framlínu upp á 1 milljarð. Minni hlutinn var með breytingartillögu upp á 2 milljarða við fyrsta pakkann, kannski aðeins víðfeðmari en að mörgu leyti, eins og ráðherra sagði, voru spurningar um útfærsluna o.s.frv. En þær hugmyndir sem við vorum með um útfærslu og vorum búin að reifa í fjárlaganefnd hljóma nákvæmlega eins og þær sem eru hér í greinargerð frumvarpsins. Það þurfti ekki meira til. Þá væri fjárheimildin til núna fyrir fjármálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og fleiri stofnanir til að fara að byrja á þessu strax í staðinn fyrir að bíða enn lengur. Ég hef heyrt menn hvetja til þess að þessar álagsgreiðslur nái til allra sem þetta varða, þar hafa t.d. ræstitæknar verið nefndir því að það hefur verið nóg að gera hjá þeim við að passa upp á hreinlæti og sóttvarnir á þessum stöðum.

Grundvallarspurningin sem ég hef er eins og venjulega: Hvaða vanda mætir hver aðgerð? Hver er væntur viðsnúningur af þeim aðgerðum? Því er í engu svarað eins og venjulega í fjárlagavinnunni. Við höfum ekki hugmynd um í rauninni hvert umfang vandans er og höfum enga mælikvarða til að miða við um hvaða ávinning við höfum af þessum fjárheimildum þegar allt kemur til alls. Klassískt vandamál. Það spilar aðeins inn í það að við gerðum athugasemd og ég gerði athugasemd um kynjaða fjárlagagerð í fyrsta pakkanum. Nú er a.m.k. gerð greining á því varðandi félagslega hluta þessa pakka en ekki sá ég mikið um t.d. græn markmið, ef við vísum til að mynda til þingsályktunar um græna hagkerfið. En kynjuð fjárlagagerð er til staðar í félagslega pakkanum. Ekki er mikið um greiningu þar á, það var bara staðhæfing um að það yrði a.m.k. óbreytt ástand, ef ekki aðeins til batnaðar. Meira var það nú ekki.

Við búum við dálítið einhæft atvinnulíf og það ætti að geta gert þessar aðferðir einfaldar að vissu marki en einhverra hluta vegna eru þær mjög flóknar og ómarkvissar og þær eru mjög götóttar. Samhengi aðgerða er ekki mjög augljóst miðað við vandamálin. Fyrst var það sjávarútvegurinn sem var alltaf í vanda, gengið flökti eftir því hvernig gekk þar. Síðan hefur álið verið ákveðin lífæð þegar verið var að byggja upp orkukerfið, svo var það bankastarfsemin fyrir hrun, sem var nú ein stór bóla, og síðast var það ferðamannaiðnaðurinn. Það bólar ekkert, eins og ég sagði, á þessari fjórðu stoð sem átti að vera nýsköpun svo að við séum ekki alltaf að setja öll egg í sömu körfu. Við verðum að fara að hugsa öðruvísi til framtíðar.

Það er jákvætt að setja t.d. fjárheimildir fyrir skilgreind verkefni eins og heilsueflingu í heimabyggð. Við ættum að vera með meira af svona skilgreindum verkefnum þar sem það liggur augljóslega fyrir hvaða verkefni eru næst á verkefnalistanum og Alþingi getur aukið fjárveitingar í verkefni sem eru þegar greind varðandi ábata, umfang og því um líkt. En nei, við erum ekki svo heppin. En það er alla vega mjög jákvætt að sjá að þessi viðbrögð nýtist í mörg verkefni.

Eitt sem ég geri sérstaka athugasemd við er að við erum að mæta þessum vanda í, að því er mér finnst, tiltölulega litlum skrefum. Við sjáum það núna á umfangi vandamálsins og hversu lengi það getur varað að þetta eru vissulega lítil skref sem hafa verið stigin í pakka eitt og tvö. Ég hef áhyggjur af því að við séum í rauninni að missa af ákveðnum tækifærum sem við hefðum getað byrjað á fyrr ef stærri skref hefðu verið tekin strax. Það var bent á í umræðunni til að byrja með að það var búið að tilkynna um fyrsta aðgerðapakkann þremur vikum áður en hann kom fram. Það hvað fólk vissi um umfang vandamálsins breyttist gríðarlega mikið en pakkinn virtist ekki breytast mikið. Við hefðum viljað byrjað stórt og taka minni skref gagnvart glufunum í kjölfarið, en við erum ekki að byrja stórt. Við erum að taka tiltölulega lítil skref eftir því sem líður á og þá verða götin miklu stærri en þau gætu annars verið.

Við þurfum að hugsa dálítið um það að skuldsetning ríkissjóðs er aldrei vandamál ef arðsemi verkefnisins sem skuldin fjármagnar er meiri en skuldin plús vextir. Það verður líka að telja með þann kostnað sem skaðinn veldur, sem við erum að reyna að koma í veg fyrir. Við þurfum að hugsa dálítið um þetta, sérstaklega varðandi P-verkefnin sem er verið að reyna að koma hérna inn á þing. Að vissu leyti geta þau verið ágætishugmynd en þau verða alltaf skilvirkari með opinberri fjármögnun, svo lengi sem opinber fjármögnun er ódýrari en fjármögnun á einkamarkaði. Ef verkefnið er arðbært þá er alltaf arðbærara fyrir hið opinbera að gera það sjálft í staðinn fyrir að fara í samvinnu við einkaaðila, ef skuldsetning ríkissjóðs er ódýrari en á einkamarkaði. Við þurfum að hugsa um þetta núna. Þarna munar bara þó nokkru í heildarfjármunum yfir tímabil. Ríkissjóður er dálítið vel staddur núna miðað við ýmis önnur tímabil, er skuldlítill o.s.frv. En eins og ég hef oft minnst á áður þá erum við með innviðaskuld. Hún er mjög falin af því að við sjáum í raun ekki hvað hún kostar okkur. Við felum þessa innviðaskuld í góðri stöðu ríkissjóðs, núna þurfum við að fara að glíma við þessa innviðaskuld og skuldsetja ríkissjóð. Ef við værum ekki með innviðaskuld værum við með betri innviði til að taka á því álagi sem hefur orðið, t.d. í heilbrigðiskerfinu. Ástæðan fyrir því, eins og hún var útskýrð, að við þurftum að fara í harkalegar aðgerðir eins og samkomubann o.s.frv. var að hlífa heilbrigðiskerfinu við álagi. Ef heilbrigðiskerfið hefði getað tekið við meira álagi hefði allt getað verið frjálslegra og ekki eins miklar takmarkanir.

Við verðum að hugsa þetta dálítið frá byrjun. Þessi fjárauki er mjög fyrirtækjamiðaður. Það er hægt að hjálpa óbeint fólki í gegnum fyrirtæki en við erum hérna í umboði fólks. Það á að vera fyrsta áhersluatriði okkar, að hugsa um fólk, ekki í gegnum fyrirtæki heldur byrjum á fólki, það býr til fyrirtækin. Fyrirtæki búa ekki til fólk, það er ekki hægt að snúa þessu við. Ef við styðjum fólk (Forseti hringir.) þá styðjum við líka fyrirtæki. Ef við styrkjum fyrirtæki þá styðjum við kannski fólk.