150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:41]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir að nefna önnur lönd. Ég hef nefnilega orðið var við það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hérna eru ákveðin afritun á því sem hefur verið gert nánast alls staðar annars staðar. Mjög hugmyndasnautt þegar allt kemur til alls, það er bara verið að herma eftir því sem hefur verið gert. Það er tiltölulega öruggt og þægilegt að einhver annar tók ákvörðun um þetta og við ætlum að gera það líka, okkur líður vel með að það var einhver annar sem var með upphaflegu hugmyndina. Ef það er slæm hugmynd getum við kennt þeim um, við gerðum bara okkar besta, giskuðum á að þetta væri ágætishugmynd. Það er nefnilega dálítið þannig að það þarf að tala um þetta eins og ég hef verið að nefna, með fólkið fyrst. Það eru mörg dæmi um það, og það var talað um það í óundirbúnum fyrirspurnatíma fyrr í dag, hvernig þarf að vakta það þegar verið er að setja hrúgu af fjármagni inn í starfsemi þar sem við vitum að hefur verið svindlað og það er búist við því. Við höfum verið með í gegnum áratugina skattaskjólsfyrirtæki sem eru að fela ýmiss konar vandamál. Maður getur ekkert verið að fela það ef maður lætur fjármagnið fara beint til fólksins eða í gegnum verkefni eins og nýsköpunarsjóð, Tækniþróunarsjóð o.s.frv. Við vitum hver áhrifin eru af fjármagni sem sett er þangað.

Hvað það varðar að ríkissjóður sé ekki ótakmörkuð auðlind er það alveg rétt. Það var engin slík fullyrðing hjá mér. Það sem ég er að segja er að það að taka stór skref fyrst getur vel leitt til þess að seinni tíma greiningar sýni að umfangið sé ekki eins mikið og það gat mögulega orðið. En fjárheimild þýðir ekki eyðsluheimild. Gerir það ekki. Fjárheimildir og stórt skref til að byrja með snýst um að það er alla vega öryggi til þess að nýta það sem hægt er að nýta án þess að vera að koma alltaf hingað í salinn og biðja um pening eftir á með mjög óljósum formerkjum eins og við könnumst við núna á undanförnum árum.