150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:44]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svörin. Ég ætla að grípa boltann þar sem hv. þingmaður skildi hann eftir í fyrra andsvari. Ég hef talað fyrir því og ég er mjög fylgjandi því að við gerum þetta í smáum skrefum, tökum þetta í nokkrum pökkum og einmitt í gegnum fjáraukalög. Við erum vön því að taka fjárauka hér inn í árslok þar sem beðið er eftir á um heimildir fyrir útgjöldum sem hafa orðið á árinu. Mér finnst mjög góður bragur á því að við séum að fá inn í þingið beiðni um fjárheimildir fyrir einhverjum aðgerðum, markvissum aðgerðum, til að bregðast við því ástandi sem við erum í og við gerum það með sem markvissustum hætti og séum raunverulega í þeirri fjármálakrísustjórnun sem við er að eiga.

Hv. þingmaður fór í ræðu sinni ágætlega yfir þær aðgerðir sem beinast að hópum og það er, enn og aftur, í takt við það sem aðrar þjóðir eru að gera, fyrstu aðgerðirnar voru að verja hringrásina sem ég fór yfir í fyrra andsvari. Núna beinum við aðgerðum að tilteknum hópum til að verja fyrir neikvæðum félagslegum, efnahagslegum og heilsufarslegum afleiðingum. Þar erum við eitthvað að læra, vonandi. Ég tek sem dæmi tómstundastyrki fyrir börn. Það fer í ákveðinn farveg og það er beinlínis hvatt til þess að allar aðgerðir sem við gerum í gegnum ríkisfjármálin og fjárlögin fari í hefðbundna farvegi, við séum ekki að byrja á einhverju nýju, við séum ekki að fara í miklar kerfisbreytingar. Við erum að setja fjármagn í farveg fyrir nýsköpun og það er vel. Það talar inn í framtíðina, það er viðspyrna. Tómstundastyrkirnir fara í gegnum sveitarfélögin og þannig skila þeir sér til þeirra barna sem eiga það kannski á hættu að falla brott úr tómstunda- og íþróttaiðkun sinni. Það er auðvitað mjög góð (Forseti hringir.) og markviss aðgerð sem fer í þá farvegi sem eru til staðar og þannig eigum við að vinna þetta sem mest.