150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tómstundastyrkurinn er tvímælalaust dæmi um fólk fyrst. En ástæðan fyrir því að ég segi fólk fyrst — þetta er ekkert annaðhvort eða, ekki annaðhvort fólk eða bara fyrirtæki, þetta er að sjálfsögðu hvort tveggja — er að ég er að reyna að segja að við þurfum að einbeita okkur að glufunum og götunum fyrst. Ég býst við að hv. þingmaður hafi fengið tölvupóst, og örugglega nokkra tölvupósta, með dæmi um unga konu, einstæða móður, sem er í námi og hefur verið að vinna tvö, þrjú störf með námi til þess að geta sinnt því en missir þessi störf. Hún spyr: Hvaða úrræði eru fyrir mig? Ég hef ekki hugmynd, í alvöru. Allir þessar hlutabótaleiðir, ég veit ekki hvort aðstæður hennar eru þannig að hlutabótaleiðin virki fyrir hana. Púsluspilið sem við erum að reyna að setja saman fyrir fólk er mjög óaðgengilegt. Það er ekki ásættanlegt. Þess vegna er ég að gagnrýna að það sé ekki fólk fyrst. Við tryggjum fyrst gólf þar sem eru engar glufur sem fólk dettur í svo að við fáum ekki svona dæmi. Við verðum að byrja þar.

Það sem við vorum að tala um varðandi fjárheimildirnar, að fá þær og samþykkja fyrst hérna á Alþingi en ekki eftir á, var eitthvað sem ég reyndi að minnast á og fleiri held ég varðandi heilbrigðiskerfið í fyrsta pakkanum. Það er fyrirsjáanlegur kostnaður í heilbrigðiskerfinu, auknar fjárheimildir. Nei, nei, við gerum það á eftir. Af hverju? Ég skil ekki af hverju. Er það til þess að reyna að fela hversu stórt þetta verður fyrir ríkissjóð í lok árs þegar þarf að samþykkja þetta af því að búið er að eyða peningunum? Ég skil ekki af hverju það þarf að gera þetta svona. Maður reynir sitt besta við að reyna að krafsa (Forseti hringir.) í gegnum þetta og átta sig á því hvaðan þessar aðgerðir koma og hvaða árangri þær skila, en fær aldrei svör um það.