150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[14:49]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að fást við mikinn vanda sem ekki er auðvelt við að fást og ekki er laust við að maður sé nokkuð kvíðinn fyrir því hvernig framhaldið verður. Þess vegna skiptir miklu máli að þau skref sem við tökum séu fumlaus og þau séu fullnægjandi miðað við það sem við sjáum fram undan. Ekki ætla ég að þykjast svo forvitri að ég viti nákvæmlega hvernig framtíðin mun spilast út, hvorki hvað varðar framgang veirunnar í heiminum né stöðu efnahagsmála. En hitt held ég að ég geti fullyrt að staðan er erfið.

Í upphafi þegar þessi óáran öll var að hefjast voru höfð uppi um það orð af hálfu stjórnvalda að allt yrði gert sem gera þyrfti og meira væri betra en minna. Mér finnst satt að segja að ekki hafi alveg verið staðið við þessi orð. Sá pakki sem við erum að skoða núna hefur valdið vonbrigðum og ég held að óhætt sé að segja að hann hafi valdið vonbrigðum mjög víða í samfélaginu. Auðvitað er það svo með öll mannanna verk og er að sjálfsögðu með þetta eins og allt annað. Það þarf eiginlega ekki að taka fram að það sem gert er er til bóta. En það er ekki nóg. Þess vegna sýnist mér að menn segi alls staðar í samfélaginu: Þetta var ekki það sem ég þurfti. Þetta var ekki það sem ég átti von á. Ég held því að mjög brýnt sé að stigin verði fastari og sterkari skref í öllum þessum málum.

Nú gengur þetta tiltekna frumvarp sem akkúrat er til umræðu núna og síðan þau frumvörp sem eru hluti af þessum pakka til nefnda og ég trúi því og treysti að þar verði svigrúm til þess að bæta verulega í þennan pakka. Við megum ekki falla í þá gryfju að ýta vandanum um of á undan okkur. Það verður að takast á við hann. Mikið af þessum aðgerðum er þess eðlis að verið er að ýta skaflinum á undan en honum er ekki rutt úr vegi. Mikið af þessu snýst um það að fresta greiðslum, geta tekið lán o.s.frv. Það eru ekki bestu leiðirnar.

Við erum svo heppin að við stöndum vel efnahagslega. Við erum með tiltölulega sterkan og öflugan ríkissjóð. Skuldahlutfall okkar er lágt og ef ekki núna, hvenær þá eigum við að geta nýtt okkur þessa góðu stöðu?

Við verðum líka að gæta þess í öllu því sem fram undan er að við sköpum þannig aðstæður að ávallt sé gætt fyllsta jafnræðis og fullkomið gegnsæi ríki um allar aðgerðir og það sé fyrirsjáanleiki. Það er alltaf hætta á því þegar mikið umrót verður í samfélaginu, og mun gilda núna eins og hingað til, að gæðunum verði misskipt. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfum gott og strangt eftirlit með því hvernig þetta fer allt saman fram og að þeir sem best standa geti ekki sópað til sín verðmætum í krafti þess að illa árar.

Ef við víkjum aðeins að nokkrum tilteknum atriðum í þessu er óhjákvæmilegt að byrja á ferðaþjónustunni. Þar held ég að vonbrigðin séu trúlega mest með það sem lagt er af stað með hér. Það virðast ekki vera mjög margir sem telja að þetta muni verða til hjálpar. Við vitum auðvitað að ferðaþjónustan stóð að mörgu leyti ekki eins vel og skyldi, það var orðin offjárfesting og ljóst var að það yrði samdráttur, en við megum samt ekki láta það henda okkur að við skiljum við þessa mikilvægu atvinnugrein þannig að hún sé á algjörum brauðfótum og geti ekki tekist á við það þegar ferðamenn byrja að koma aftur til landsins.

Annað finnst mér rétt að nefna í samhengi við ferðaþjónustuna og veldur mér örlitlum heilabrotum. Við Íslendingar erum mjög ferðaglöð þjóð og stór hluti Íslendinga hafði ráðgert að fara til útlanda í sumar. Þeim ferðum hefur öllum verið aflýst. Menn munu trúlega ekki ferðast til útlanda á næstu mánuðum. Í mörgum tilvikum voru neytendur búnir að greiða þær ferðir að fullu sem nú hefur verið aflýst. Nú er gripið til þess ráðs með afturvirkum hætti að biðja fólk um að bíða með að ferðast þar til viðkomandi fyrirtæki getur hafið sínar ferðir aftur. Ég held að þarna séu nokkur atriði sem hafi mjög neikvæð áhrif. Ég er sannfærður um að meginþorri þeirra sem hefði fengið endurgreitt að fullu núna myndi nota þá fjármuni til að ferðast innan lands. Meðalmaðurinn fer ekki í tvö dýr sumarleyfi á sama árinu. Við erum í raun að biðja fólk annars vegar um að ferðast innan lands og hins vegar um að sætta sig við að fá ekki endurgreiddar ferðir sem ekki voru farnar. Ég held að þetta muni valda því að innlend ferðamennska verður ekki sú sem menn eiga von á, fyrir utan það að hér er verið að leggja til afturvirka lagabreytingu. Ferðaskrifstofur voru þegar búnar að lofa viðskiptavinum sínum endurgreiðslu sem nú verður ekki staðið við. Ég held að þetta sé röng aðferðafræði. Ég held að fara þurfi einhverja aðra leið. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir þeim mikla vanda sem ferðaskrifstofur eiga við að etja en það verður að fara aðra leið til að leysa þennan vanda.

Mig langar líka til að minnast sérstaklega á annað atriði. Við stöndum frammi fyrir því einu sinni enn að stór atvinnugrein verður fyrir miklum áföllum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem áföll verða í íslensku atvinnulífi og það hriktir í stoðum, þó að þetta sé sennilega með stærsta áfallinu og sé talsvert öðruvísi en önnur áföll. En hvað hefur verið sagt við okkur í hvert einasta skipti sem það hefur gerst? Og hverju höfum við lofað sjálfum okkur í hvert einasta skipti sem þetta hefur gerst? Að við ætlum að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Við ætlum að hafa fleiri stoðir, við ætlum ekki að verða svona háð einni atvinnugrein. En við gerum alltaf sömu mistökin. Við förum að treysta á einstakar atvinnugreinar sem verða of umfangsmiklar í samfélaginu. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að ætla hér að gera ráðstafanir til tveggja ára. Þó að rétt sé að fagna því að menn leggja hér áherslu á nýsköpun og þróun þá vita allir að nýsköpunar- og þróunarstarfsemi er langhlaup, það tekur langan tíma. Ráðstafanir til tveggja ára eru bara ekki nóg. Menn leggja ekki út í ævintýri af því tagi að ætla að skapa eitthvað nýtt og leggja til þess starfskrafta sína og fé þegar menn sjá ekki lengra fram í tímann. Hér verður að gera breytingu. Hér verður að segja sterkt og ákveðið: Við ætlum að hugsa til tíu ára. Við ætlum að stórefla fjármuni sem fara til nýsköpunar- og þróunarverkefna til langs tíma. Allir sem tala um nýsköpun geta treyst því að það verður til langs tíma. Við eigum líka að taka stærri skref í því að lyfta annars vegar þakinu á hámarki þess sem menn geta fengið endurgreitt vegna rannsókna- og þróunarvinnu og við eigum líka að lyfta hámarkinu sem hvert fyrirtæki getur fengið. Má jafnvel hugsa það þannig að það verði þrepaskipt hve mikinn hluta kostnaðar menn mega draga frá. Við eigum að breyta þessu, en við eigum líka að veita enn meira fé inn í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð og aðra samkeppnissjóði og við eigum jafnframt að efla og styðja mjög við getu íslenskra fyrirtækja til að sækja í erlenda sjóði. Þar eigum við tækifæri. Við höfum nýtt þau en við getum gert enn betur.

Ég held einnig að mjög mikilvægt sé að efla sjóðinn Kríu. Það mætti jafnvel gera með myndarlegri hætti. En við þurfum að velta fyrir okkur hversu hratt hann kemst á laggirnar. Hversu hratt getur hann byrjað að veita fé út til fyrirtækjanna? Ég held að skynsamlegt væri að ef það getur ekki gerst innan fárra mánaða þá sé betra eða nauðsynlegt jafnframt að beina fjármunum til þeirra sjóða sem ég nefndi. Það er til nóg af hugmyndum. Þessir sjóðir hafa ævinlega þurft að vísa góðum hugmyndum frá. Það er nóg af hugmyndum sem hægt er að vinna með. Hér erum við ekki bara að hugsa um bráðavandann, þetta mun að sjálfsögðu eitthvað hjálpa til þar, þetta er ekki lausnin á honum en ætti að gera okkur betur í stakk búin til að ná loksins því markmiði að byggja upp fjölbreytt samfélag og atvinnulíf sem er tæknilegt, sem er hugverkadrifið, sem getur staðið undir vel launuðum störfum og flutt út hugvit og er ekki auðlindadrifið. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum þetta í huga.

Ekki verður hjá því komist að nefna tvennt til viðbótar. Í fyrsta lagi áform um stuðning við fjölmiðla, sem er hið besta mál, ég tek það fram. Þingið hefur verið að vesenast með frumvarpið um stuðning við fjölmiðla. Þar hafa stjórnarflokkarnir fyrst og fremst ekki getað komið sér saman um það hvaða leiðir eigi að fara, þannig að það hefur verið stopp. Nú þarf að grípa til ráðstafana. Ég hef áhyggjur af þeirri leið sem farin er, að gera menntamálaráðherra nánast að einvaldi í því hvernig þeim fjármunum verður úthlutað. Að auki held ég að menn hljóti að verða fyrir talsverðum vonbrigðum með það sem til skiptanna er miðað við að áður var búið að eyrnamerkja 400 milljónir á þessu ári til verkefnisins en nú er verið að tala um 350.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega þátt úr félagsmálahlutanum sem varðar það að efla geðheilbrigðisþjónustu sem er ákaflega brýnt mál. Ég held samt að við hefðum átt og ættum að stíga stærra skref því að þar er mikilvægast að koma þeirri þjónustu undir Sjúkratryggingar Íslands. Ég er ekki viss um að það sé endilega besta leiðin að reyna að setja þetta allt saman undir hið opinbera kerfi. Við eigum sjálfstætt starfandi sérfræðinga á þessu sviði sem er sjálfsagt að nýta. En aðalatriðið er að við lítum á geðheilsu eins og hverja aðra heilsu. Sé þar brestur komi aðstoð úr opinberum sjóðum til að takast á við það.