150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ekki verður annað séð en að þær efnahagsaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt undir merkjunum efnahagsráðstöfun eða pakki númer tvö gagnist fyrst og fremst litlum fyrirtækjum þótt í þessu séu líka félagsleg úrræði sem eru ágæt og ég kem nánar að á eftir. Hæst ber svokölluð stuðningslán sem eru kannski stærsti hlutinn af aðgerðunum. Þetta er mikilvæg og jákvæð aðgerð hvað þau fyrirtæki varðar en nær þó einungis til u.þ.b. 15% viðskiptahagkerfisins í heild sinni ef litið er til veltunnar eins og ég kom að í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra áðan. Eftir standa þá 85% sem geta í raun og veru ekki nýtt sér þetta úrræði. Það er alveg ljóst að stuðningslánin þurfa að ná til fleiri fyrirtækja. Það eru ekki síður meðalstór fyrirtæki sem lenda í vanda.

Ákvæðið um jöfnun tekjuskatts milli ára er jákvætt, og kem ég nánar að því á eftir, og auk þess félagslega úrræðið eins og ég nefndi. Ég fagna því sérstaklega að það eigi að setja aukið fjármagn í nýsköpun, sprotastarf, rannsóknir og þróun. Það er jákvætt útspil hvað varðar skapandi greinar. Ég ætla að vona að stjórnvöld sýni það í verki að styðja við nýsköpun á landsbyggðinni. Dæmin sýna því miður að ríkt hefur ákveðið áhugaleysi hjá ríkisstjórninni í málefnum nýsköpunar þar. Hagsmunafélög hugvitsmanna hafa ekki einungis verið svipt öllum opinberum stuðningi á síðustu árum heldur eru þau markvisst sniðgengin í stjórnkerfinu, það er staðreynd. Það er mikill aðstöðumunur þegar kemur að stofnunum og háskólaumhverfi annars vegar og almennum frumkvöðlum hins vegar varðandi umsóknir í samkeppnissjóði. Stofnanir sem bornar eru upp af ríkisfé, t.d. Matís eða Nýsköpunarmiðstöð Íslands, eru í yfirburðastöðu til að hljóta styrki samkeppnissjóða. Stofnunin getur sýnt fram á tryggt mótframlag sem fjármagnað er af ríkissjóði og mikið mannval sérfræðinga sem einnig eru á launum hjá ríkissjóði. Við þetta þarf hinn almenni umsækjandi að keppa sem oft og tíðum er búinn að setja allt handbært fé í sitt verkefni og á undir högg að sækja með öflun sérfræðiaðstoðar. Því miður er allt of mikill aðstöðumunur milli landshluta þegar kemur að nýsköpun og ég vona svo sannarlega að þessi aukafjárveiting verði nýtt til að draga úr honum.

Flestar stofnanir sem þessara forréttinda njóta eru á höfuðborgarsvæðinu en almennir frumkvöðlar eru dreifðir um allt land eins og við þekkjum. Frumkvöðlamiðstöðvar þar sem hugvitsfólk getur komið saman gegn hóflegu leigugjaldi og unnið að verkefnum sínum sameiginlega eða sér eru mikilvægur þáttur í þeim frumkvöðlastuðningi sem stjórnvöld verða að horfa frekar til og sérstaklega núna í þessum aðstæðum. Ég vil minna á það hér og minntist á það í andsvari við fjármálaráðherra að stjórnarandstaðan kom sameinuð með breytingartillögu við síðasta fjárauka um hækkun til nýsköpunar og þróunar. Þær tillögur voru felldar og hljóðuðu upp á svo til sambærilega upphæð og nú er lagt til í þessum fjárauka. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur kallað eftir því að stjórnarandstaðan og allir vinni saman í þessum erfiðu aðstæðum. Við í Miðflokknum höfum stutt allar tillögur ríkisstjórnarinnar vegna þess að það munar um allt í þessum efnum til að lágmarka það tjón sem við stöndum frammi fyrir. Hins vegar hefur ríkisstjórnin fellt allar tillögur stjórnarandstöðunnar, þar á meðal tillöguna um nýsköpun sem er núna komin á dagskrá. Það er eins og það sé ekki sama hver leggur tillögurnar fram. Því miður lítur það þannig út og það er nokkuð sem almenningur vill ekki sjá hér þegar við erum að takast á við svo erfitt vandamál. Ég hvet ríkisstjórnina til að sýna þann samstarfsvilja sem hún óskar eftir að stjórnarandstaðan sýni, að hún sýni hann í verki og samþykki hér góðar tillögur sem við höfum lagt fram.

Tillögur sem við lögðum fram eftir 1. umr. um fyrsta aðgerðapakkann voru felldar en eru komnar hingað inn núna. Að sjálfsögðu fagna ég þeim en þetta eru sérkennileg vinnubrögð af hálfu þeirra sem kalla eftir samstarfi og samvinnu.

Alþýðusambandið hefur lýst yfir vonbrigðum með þessa tillögu stjórnvalda og það er nokkuð athyglisvert. Þau í Alþýðusambandinu segja m.a. að ekki sé leitast við að tryggja öryggi þeirra hópa sem fallið hafa á milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum stjórnvalda og að nú verði stjórnvöld einnig að beina stuðningi sínum í ríkara mæli til fólks til jafns við fyrirtækin. ASÍ leggur áherslu á þetta og gleymum því ekki að það eru skattgreiðendur sem styrkja fyrirtækin, óháð því hvort þau viðhalda störfum, fara eftir kjarasamningum eða standa skil á framlagi sínu til samfélagsins.

Rétt er að geta þess að í Bandaríkjunum eru styrkir vegna veirufaraldursins til fyrirtækja háðir því að fyrirtækin segi ekki upp starfsfólki.

Áður en ég kem að ferðaþjónustunni vil ég nefna að sumir hópar falla milli skips og bryggju í þessum aðgerðum stjórnvalda. Þar vil ég nefna sérstaklega leigubílstjóra vegna þess að það er stétt sem hefur ekki fengið að njóta þeirra úrræða sem hér eru í boði. Leigubílstjórar eru háðir svokölluðum leigubifreiðastjóraleyfum og eftir því sem mér skilst er framkvæmdin á þessum aðgerðum með þeim hætti að þeir þurfa að leggja leyfi sín inn til að eiga aðgang að úrræðum ríkisstjórnarinnar. Að sjálfsögðu er mjög óheppilegt að leggja starfsleyfið inn. Þá er viðkomandi í raun og veru að gefa það frá sér og að aðrir geti nýtt það. Þarna eru vankantar sem verður að taka á til að hægt sé að mæta þessum hópi sem telur fjölskyldur 600–700 manns. Þarna er hópur sem þarf að horfa sérstaklega til og ég hvet ríkisstjórnina til þess.

Hvað ferðaþjónustuna varðar þekkjum við að framlag ferðaþjónustunnar við öflun gjaldeyristekna er verulegt. Hún hefur verið okkar stærsta útflutningsgrein og þar hafa einnig verið fjölmörg störf. Horfur í greininni hafa því veruleg áhrif á efnahagsforsendur okkar til framtíðar og nú ríkir fullkomin óvissa um það hvenær greinin kemur til með að ná sér á strik á ný. Á næstu mánuðum þarf hún að búa við sérstaka aðlögun í formi takmarkana á komu ferðamanna hingað til lands þegar þeir á annað borð fara að láta sjá sig.

Í fjármálaáætluninni fyrir 2020–2024 kemur fram að fyrirhugað sé að gera breytingar á gjaldtöku ferðamanna á gildistíma áætlunarinnar. Í síðasta fjárlagafrumvarpi var boðuð ný skattheimta í formi gjalda á ferðamenn. Það er nokkuð ljóst að engan veginn getur orðið af þeim áformum. Menn hafa kannski ekki gert sér grein fyrir því, og þá horfi ég sérstaklega til ríkisstjórnarinnar, í upphafi hversu gríðarlegt högg þessi veirufaraldur er fyrir ferðaþjónustuna. Þegar þetta hófst allt saman vonuðust menn til þess að þetta yrði stutt, kannski fjórar til fimm vikur, en síðan hefur staðan versnað dag frá degi. Við búum í fullkominni óvissu um framhaldið.

Miðflokkurinn styður allar þessar tillögur ríkisstjórnarinnar og við látum ekki okkar eftir liggja í þeim efnum. Við höfum komið með tillögur, boðið fram aðstoð og annað slíkt. Á það hefur ekki verið hlustað, t.d. tillögu sem sá sem hér stendur hefur lagt fyrir fjárlaganefnd um álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsmanna. Þeim var tekið fálega í fjárlaganefnd og enginn áhugi meðal meiri hluta nefndarmanna gagnvart því máli. Við í stjórnarandstöðunni brugðum þá á það ráð að flytja sérstaka breytingartillögu við fjáraukann um sérstakar álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks. Meiri hlutinn, ríkisstjórnin, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir, felldi þessa tillögu og svo er hún komin uppi á borð núna. Ég fagna því að sjálfsögðu, ég fagna því sannarlega að hér eigi að greiða álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks. Það á það svo sannarlega skilið og ég hef talað fyrir því frá upphafi. En þetta sýnir vinnubrögðin hjá ríkisstjórninni sem kallar eftir samstöðu. Ég kalla eftir því að þessu verði breytt af hálfu ríkisstjórnarinnar, að hún hlusti á okkar tillögur. Við erum í því öll saman að reyna að finna bestu lausnirnar til að mæta þessum vanda.

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar verða að taka mið af því að niðursveiflan verði meiri en svartsýnustu spár gera ráð fyrir. Hún verður að hafa í huga undir hvaða aðstæður við erum að búa okkur. Það hefur ríkisstjórnin ekki gert nægilega vel að mínu mati. Hún virðist vera hrædd við að horfast í augu við að þessi niðursveifla er dýpri en gert var ráð fyrir í svartsýnustu spám. Ríkisstjórnin setur aðgerðir sínar fram í smáskömmtum til að bregðast við því sem þegar er orðið. Það er ekki rétta aðferðafræðin að mati okkar í Miðflokknum, það þarf framsýni og djörfung til að takast á við versta ástandið í efnahagsmálum í 100 ár. Það er óraunhæft að gera ráð fyrir því að hlutirnir lagist síðar í sumar eða haust. Aðgerðirnar þurfa að taka mið af þessu og það verður að segjast eins og er að það þarf að grípa til róttækra og fordæmalausra aðgerða í fordæmalausum aðstæðum.

Við í Miðflokknum höfum talað fyrir því að nauðsynlegt sé að fella tryggingagjaldið niður tímabundið og þá sérstaklega hjá þeim fyrirtækjum sem koma einna verst út úr þessu, a.m.k. fram að áramótum er nauðsynlegt að fella niður tryggingagjaldið.

Það þarf að útvíkka hlutabótaleiðina og hreinlega koma á föstum styrkjum til fyrirtækja eins og kynnt hefur verið í Danmörku. Það stefnir allt í það vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að markmiðið er að verja störfin og koma í veg fyrir að atvinnuleysið aukist enn frekar. Er það orðið verulega hátt sem er mikið áhyggjuefni. Hvert starf er mikilvægt og til mikils að vinna að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks. Það verður að leita allra leiða í þeim efnum.

Ég ætla síðan að koma aðeins nánar að því hversu mikilvægt það er að koma strax fram með öflugar tillögur. Hver dagur er virkilega dýrmætur í þessum efnum og ég nefni breytingartillögu sem stjórnarandstaðan kom með í fyrstu aðgerðunum. Þrjár vikur hafa tapast hjá ríkisstjórninni frá því að við fluttum þessar tillögur þar til að hún flytur núna sömu tillögurnar vegna þess að hún gat ekki hugsað sér að styðja tillögur stjórnarandstöðunnar. Þetta sýnir að stjórnarandstaðan er framsýnni og gerir sér betur grein fyrir vandanum en ríkisstjórnin.

Vandi ferðaþjónustufyrirtækja er langstærstur þegar horft er yfir fyrirtækin almennt og mikil vonbrigði að ekki hafi verið komið nægilega til móts við þarfir þeirra í þeim pakka sem kynntur var í gær. Aðeins lítill hluti ferðaþjónustufyrirtækja getur nýtt sér lánafyrirgreiðsluna og það er þörf á sértækum aðgerðum fyrir ferðaþjónustuna. Ég held að það sé alveg ljóst. Ekki þurfa öll fyrirtæki á þeim aðgerðum að halda. Ferðaþjónustufyrirtækin eru í þeirri stöðu að um 80% þeirra munu stríða við 100% tekjufall á næstu mánuðum, þ.e. hafa enga innkomu. Eftir stendur allur fastur kostnaður, launakostnaðar og annað. Þetta er gríðarlegt áfall. Á þetta hefur ferðaþjónustan ítrekað lagt áherslu. Því miður býr þessi mikilvæga grein, stærsta útflutningsatvinnugreinin okkar, við verulega óvissu um það hversu lengi ástandið varið. Allt árið lítur einfaldlega illa út.

Ég sé, herra forseti, að tími minn er að verða búinn og ég þarf að koma nánar inn í þessa umræðu á eftir (Forseti hringir.) en vil þó segja að lokum að við í Miðflokknum styðjum þessar tillögur. Við teljum hins vegar að lengra hefði þurft að ganga. Ég hef komið inn á það og kem nánar inn á það á eftir.