150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fjalla aðeins um það hvernig mér finnst eins og áhersla ríkisstjórnarinnar hafi verið á fyrirtækin fyrst en ekki fólk. Ég hef verið að reyna að útskýra að þetta er ekki annaðhvort/eða, að sjálfsögðu er hægt að styrkja fólk í gegnum fyrirtæki eins og hefur verið komið inn á, en það er í gegnum fyrirtæki. Við erum með og þurfum á að halda og önnur lönd hafa þurft að setja í gang þó nokkuð stórt eftirlitsverk með því hvort fyrirtækin séu að fara rétt og vel með þá fjármuni sem þau fá í gegnum ýmiss konar styrkingar frá hinu opinbera. Það yrði mun minna um það ef fjármunirnir færu fyrst til fólks. Þetta snýst ekki um að styrkja annaðhvort í gegnum fyrirtæki eða í gegnum fólk og það eru tvímælalaust aðgerðir í þessum pakka sem fara beint til fólks en ekki fyrst til fyrirtækja.

Ég myndi vilja að orðræðan væri ekki á þann hátt að það væri verið að snúa út úr því sem hefur verið sagt hérna um að ekki sé hugsað um fólk, eins og er verið að tala um. Hér koma fram ábendingar um að við byrjum á að koma í veg fyrir þær glufur sem hafa verið nefndar í umræðunni. Við höfum öll fengið tölvupósta frá ýmsum aðilum sem útskýra aðstæður sínar, þær glufur sem þeir hafa lent í sem hlutastarfaleiðin og ýmislegt svoleiðis nær ekki utan um. Það er vísbending um að við séum ekki að hugsa um fólk fyrst.

Hv. þingmaður talaði um að verið væri að verja ráðningarsamninga. Þá er verið að verja ráðningarsamninga en ekki fólk því að ekki eru allir í þannig samskiptum, með ráðningarsamninga. Það er sértæk aðgerð, ekki almenn aðgerð, og það er það sem ég er að reyna að tala um. (Forseti hringir.) Ef við ætlum að tala um almenna aðgerð verðum við að tala um alla, þar sem myndast ekki glufur, og þá erum við að hugsa um fólk fyrst.