150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:30]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að játa að ég skil ekki allt sem hv. þingmaður fór yfir. Hann segir að það sé verið að verja ráðningarsamninga en ekki fólk. Hvað heldur hv. þingmaður að ráðningarsamningar séu? Eitthvert sjálfstætt fyrirbæri? Ráðningarsamningur er starf. Það er verið að verja störf, forseti, eins og ég sagði líka í ræðu minni. Störf hverra? Störf fólks. Það er verið að eyða miklum fjármunum í að koma í veg fyrir að fleira fólk missi vinnuna, missi ráðningarsamninginn sinn. Er það ekki fyrir fólk, hæstv. forseti? Að sjálfsögðu.

Ég leyfi mér að efast um að það skipti það fólk sem fær laun sín greidd að mestu vegna hlutabótaleiðarinnar — þar er eitthvert hámark, 90%, ef ég man rétt, hv. þingmaður man það kannski betur en ég, og svo eitthvert þak — sérstaklega miklu máli að fjármunirnir komi við hjá fyrirtækinu áður en þeir fara hefðbundna leið inn á launareikning þess. Það er það sem fjármunirnir gerðu. Þeir fóru vissulega til fyrirtækjanna til að nýta launagreiðslukerfi allra fyrirtækja í landinu. Ætluðum við kannski að koma okkur upp beinu launagreiðslukerfi úr ríkissjóði inn á launareikninga fólks?

Mér finnst hér verið að snúa svo út úr að mér finnst það mjög miður. Það er þetta sem ég á við. Hv. þingmaður sagði, ef ég hjó rétt eftir, að það væri ekki fyrst og fremst verið að hugsa um fólk. Jú, í fyrstu aðgerðunum sem ríkisstjórnin greip til var akkúrat fyrst og fremst verið að hugsa um fólk, laun í sóttkví, hlutabótaleiðin. Þar var verið að hugsa um fólk. Síðan fór ég í löngu máli yfir það hvernig við erum að hugsa um fólk, hvernig þessar aðgerðir snúast allar um fólk. (Forseti hringir.) Ef krafa hv. þingmanns er að við hugsum um hvern einasta íbúa þessa lands og ef hann segir að aðgerðir nýtist ekki öllum við öllu (Forseti hringir.) og þá séum við ekki að hugsa um fólk, er hv. þingmaður með einhverjar töfralausnir uppi í erminni sem ég hlakka til að heyra?

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á ræðutíma.)

Ég biðst forláts.