150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur hlustað á það undanfarin ár að við Píratar höfum talað um t.d. skilyrðislausa grunnframfærslu. Útgangspunkturinn hjá mér og ástæðan fyrir því að ég nota þau orð sem ég hef verið að nota er að fólk hefur lent í glufum á milli mismunandi aðgerða sem var gripið til. Það eru varúðarflöggin sem fóru strax upp þegar fyrsti pakkinn var lagður fram, að hann skilur eftir glufur. Það kostar ekki mikið að fylla upp í þær en var samt ekki gert. Það var bara einblínt á að þessi leið virkar hérna og þessi þarna, þetta eru góðar rennibrautir sem fólk getur farið í og runnið eftir voðalega þægilega en sumir passa ekki í þær einhverra hluta vegna, eru of lágvaxnir eða hávaxnir, of breiðir, of mjóir eða hvernig sem það er. Það gerir það að verkum að ég segi að ekki sé verið að hugsa um fólk. Það er hægt að velja sértækar aðgerðir fyrir fullt af fólki og ef maður skilur eftir einhverja (Gripið fram í.) gleymast viðkvæmir hópar. Eins og ég nefndi áðan hafa þingmenn fengið ótal tölvupósta frá ýmsum aðilum sem eru að lýsa aðstæðum sínum, þau finna hvorki í þeim úrræðum sem var gripið til í fyrsta pakkanum né núna hvar þau detta inn. Ég hef verið að benda á það. Byrjum á að koma í veg fyrir að allir detti einhvers staðar niður um gólfið ofan í kjallara. Síðan geta sértæku lausnirnar komið þar ofan á.