150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:34]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Enn er svo komið að ég skil ekki alveg hv. þingmann og nota ég þó alla mína íslenskukunnáttu. Ef fólk lendir í glufum var ekki verið að vernda alla og þá er ekki verið að hugsa um fólk. Við komum á prógressífu skattkerfi þar sem við hækkuðum lægsta skattþrepið. Vorum við ekki að hugsa um fólk þá af því að við vorum bara að hugsa um hluta af samfélaginu, af því að við vorum ekki að hugsa um hæst launuðu borgara þessa lands? Vorum við þá ekki að hugsa um fólk? Við getum tekið fínar samræður einhvern tímann um skilyrðislausa grunnframfærslu, hvort það sé besta leiðin akkúrat núna þegar við erum að horfa á 300 milljarða pakka í einhverju formi, sem verður tekjufall ríkissjóðs, að hluti af honum fari til mín og hv. þingmanns og fleiri sem eru á háum launum. Mér hefur fundist margt áhugavert við þá hugmynd og er til í að ræða hana á öðrum vettvangi en ég held að hún eigi ekki við hér og nú, enda held ég að hv. þingmaður hafi kannski ekki verið að stinga upp á því. Hann leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér hvað það varðar.

Það er ekki hægt að halda því fram að af því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar ná ekki utan um hvern einasta Íslending, að einhverjir falli í glufur, snúist þær ekki um fólk. Það er útúrsnúningur á hæsta stigi. Það eru vonbrigði að sjá að slíkur útúrsnúningur og gamaldags vinnubrögð skuli vera í gangi á þessum tíma. Ef ég slæ tún mitt sem bóndi með sláttuvélinni minni kemst ég ekki alls staðar að heldur þarf ég að fara þar með minni sláttuvél eða jafnvel orfi og ljá, eins og var gert í sveit þar sem ég var. Er ég þá ekki að slá túnið? Jú, auðvitað. Ég hef kannski skilið eitthvað eftir og svo mun ég huga sérstaklega að því. Það er það sem ég kom inn á sérstaklega, við höfum horft á sértæku aðgerðirnar þar sem þörfin er mest. Við höfum alltaf sagt að þetta sé ekki nóg, já, það þurfi að huga að meiru. Og það er rétt hjá hv. þingmanni að það þarf að huga sérstaklega að þeim hópum sem (Forseti hringir.) falla á milli, að sjálfsögðu, en það að leyfa sér að draga þá ályktun að fyrst það sé ekki gert í öllum aðgerðunum snúist þær ekki um fólk er útúrsnúningur.