150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:37]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverð orðaskipti hérna. Ég verð að taka undir með kollega mínum, Kolbeini Óttarssyni Proppé, í ræðu hér í upphafi sem náði ágætlega utan um stóra verkefnið í þessu. Við verðum ævinlega að hafa hugfast að aðgerðir, hvort sem þær heita almennar eða hvaða nafn sem við gefum þeim, ná ekkert endilega til allra í samfélaginu. Það eru alltaf einhverjir sem falla í einhverjar glufur. Það hefur verið þannig og utan um það hefur verið reynt að ná. Hér höfum við rætt aðeins um hlutabótaleiðina. Hún gagnaðist ákveðnum hópi og varð mun umfangsmeiri en gert hafði verið ráð fyrir. Hana er nú verið að endurskoða til að vita hvort framlenging hennar sé rétta leiðin eða e.t.v. einhver önnur útfærsla.

Ég hef sagt að við höfum tekið þríeykið okkur til fyrirmyndar. Þó að ég sé ekki að líkja ríkisstjórninni eða stjórnarmeirihlutanum við þríeykið horfum við til starfsaðferða þess og þær hafa falist í því að gefa öllum hlutum ákveðinn tíma til að sjá hvaða ákvarðanir hafa verið góðar. Við sjáum eftir rétt um fjórar vikur hvað þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til hafa haft að segja og hvort þær eru, eins og ég sagði áðan, til þess fallnar að við getum nýtt þær betur eða hvort við viljum koma fram með einhverjar aðrar.

Það hefur verið talað um að aðgerðirnar nái ekki til stóru fyrirtækjanna. Þær fyrri náðu til þeirra. Stóru fyrirtækin eru að einhverju leyti að nýta sér hlutabótaleiðina, brúarlánin o.s.frv. Þessar aðgerðir beinast að öðrum aðilum en stóru fyrirtækjunum. Þær beinist að einyrkjunum, að litlu fyrirtækjunum eins og hér hefur verið nefnt, hárgreiðslufólki, fólki sem er með nudd eða sjúkraþjálfun og tannlæknum, þeim sem eru í návígi við fólk og var gert að loka. Þau fyrirtæki lokuðu ekki vegna eigin rekstrarforsendna heldur vegna sóttvarnalaga og hér er verið að mæta þeim. Margir hafa lífsviðurværi sitt af þessari starfsemi og þess vegna hljóta þessar aðgerðir að teljast fyrst og síðast vera að mæta fólki því að fólk og fyrirtæki verða seint aðskilin.

Mér finnst ástæða til að stikla aðeins á stóru. Það er afskaplega margt hérna sem fjármunir hafa verið settir í og við getum verið ánægð með. Ég hlakka til að sjá afurðirnar sem koma úr því, m.a. í nýsköpunartengingunni. Ég held að það sé eitt af því sem kemur til með að blómstra og verða mörgum hugvitsmanninum mikill styrkur, svo vel var bætt í þessa sjóði, bæði síðast og núna. Fjárlaganefnd gerði það líka síðast. Ég held að það sé eitt af því sem skiptir afar miklu máli.

Skólamálin sem hér eru tekin fyrir eru líka eitt af því sem kemur til með að skipta gríðarlega miklu máli. Sumarnám sem boðið er upp á, bæði í framhaldsskólunum og háskólunum, er meðal þess sem kemur til með að skipta miklu máli. Hér hafa verið veittir inn í það nám fjármunir. Eins og við þekkjum hefur ekki verið hægt að stunda starfsnám núna í dágóðan tíma en það á að reyna að vinna með það þannig að fólk geti bæði útskrifast og haldið áfram í sínu starfsnámi í staðinn fyrir að vera kannski eingöngu á atvinnuleysisbótum. Fólk ætti að geta sótt sér menntun í leiðinni. Fjárlaganefnd lagði fjármuni í Nýsköpunarsjóð námsmanna síðast og nú er verið að leggja honum til viðbótarfjármuni sem ég held að komi til með að skipta miklu máli.

Síðan verða álagsgreiðslur til fólksins í framlínunni í sjúkrahúsþjónustunni og líka í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa sem ég held að við séum öll ánægð með. Það á að stórefla heilsugæsluþjónustuna og fara í verkefni sem heitir Heilsuefling í heimabyggð, eins árs verkefni þar sem gera á geðrækt og andlegu heilbrigði hátt undir höfði. Sjálfsagt veitir ekki af eftir erfiðleika eins og við erum enn að kljást við og verðum að kljást við áfram. Við sjáum ekki fyrir endann á því og hvernig mörgum mun reiða af. Það á að bæta við geðlæknum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum og gert er ráð fyrir fjölgun upp á í kringum 20 ný stöðugildi í tengslum við þetta átak. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu á að leiða þessa þróun þar sem henni er m.a. falið að hafa umsjón með eflingu geðræktar, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum.

Ítarlega hefur verið farið yfir fjölskyldumálin. Hér er lagður til 1 milljarður í þann málaflokk sem ég held að sé líka meðal þess sem kemur til með að skipta máli. Það eru í kringum 50.000 kr. á barn, 600 milljónir sem hér eru veittar í stuðning til lágtekjuheimila til að tryggja jöfn tækifæri barna til íþrótta- og tómstundastarfs. Allt skiptir þetta máli sem og aðgerðir gegn heimilisofbeldi og aðgerðir sem beinast eiga gegn ofbeldi gagnvart börnum og tryggja þjónustu til handa þeim.

Þegar kemur að vinnumálunum og því gríðarlega atvinnuleysi sem við höfum séð er gert ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður fái aukafjárveitingar. Það á að efna til átaks í náms- og starfsúrræðum sem mér finnst einmitt afskaplega mikilvægt. Við vitum ekki alveg hvert langtímaatvinnuleysið verður, það sem varir lengur en 8–12 mánuði, eitthvað svoleiðis. Það skýrist með sumrinu. Hér er a.m.k. lagt til að bætt sé við vegna þess og að það verði unnið í samvinnu félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Vinnumálastofnunar. Við höfum þekkingu á þessum málaflokki síðan úr hruninu forðum, þetta er eitt af því sem ég held að við höfum lært vel af og getum nýtt okkur. Hérna eru líka fjármunir til að efla félagsleg úrræði og tryggja stuðning við viðkvæma hópa, eins og eldri borgara, félagslega einangraða hópa og öryrkja, og leggja áherslu á stuðning við fjölskyldur fatlaðra barna og styrkja landshlutateymi þeirra.

Virðulegi forseti. Ég er ekki í fjárlaganefnd lengur en mig langaði aðeins að koma inn á þetta mál af því að ég held að hver einasta aðgerð sem hér er lögð til og var lögð til síðast skipti miklu máli. Allt tikkar inn. Okkur greinir á um hvort það sé nóg og hvernig eigi að haga því. Fyrst og síðast er það ríkissjóður sem verður fyrir gríðarlegu tekjufalli en sveitarfélögin standa frammi fyrir einhverju tekjufalli líka. Saman verðum við einhvern veginn að reyna að fara í gegnum þetta og eflaust á eftir að fara eitthvað betur yfir samskiptin á milli ríkis og svo sveitarfélaganna. Hér eru lagðir til töluverðir fjármunir í sveitarfélagapakkann þó að stóru peningarnir fari í eitt tiltekið sveitarfélag. Hér er samt sannarlega verið að leggja inn fjármuni sem koma öllum sveitarfélögum vel og varða ákveðna þjónustu.

Ég er að hugsa um að láta máli mínu lokið, virðulegi forseti.