150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það voru mér mikil vonbrigði að heimilin skyldu ekki vera nefnd sérstaklega, að ekki væri sérstakur heimilispakki í þessum aðgerðapakka stjórnvalda. Það kemur mér ekki alveg á óvart en mér finnst athyglisvert hvernig hv. þingmaður reynir að verja það og hefur einnig gert hér fyrr í dag. Í janúar var atvinnuleysi var orðið 9% í Reykjanesbæ og núna er þar fjórði hver vinnandi maður atvinnulaus. Þessi 9% hafa væntanlega ekki haft mörg atvinnutækifæri á þessum tímum og lentu á strípuðum atvinnuleysisbótum 1. apríl. Það eru rúmar 289.000 kr. á mánuði.

Hv. þingmaður var í andsvari við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson fyrr í dag þar sem hún gagnrýndi það að Samfylkingin vildi hækka atvinnuleysisbæturnar og spurði hvort ekki væri betra að fjölga störfum en fólki á atvinnuleysisbótum eins og hún sagði þingmanninn vilja gera. Ég vil spyrja hv. þingmann út í þessi ummæli af því að þau eru sannarlega athyglisverð. Telur hv. þingmaður að í þessu ástandi, þegar stjórnvöld eru svo sannarlega ekki að búa til störf fyrir allt það fólk sem er atvinnulaust, að það að hækka atvinnuleysisbætur upp í 314.000 kr. á mánuði þegar lágmarkstekjutrygging er 335.000 sé til þess að hvetja fólk í þessu ástandi til að fara á atvinnuleysisbætur?

Hvers lags málflutningur er þetta (Forseti hringir.) hjá þingmanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs?