150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:55]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég mótmæli því að hér sé ekki verið að fjalla um heimilin þó að orðið heimili komi ekki fyrir í aðgerðapakkanum. Það þýðir ekki að við séum ekki að fjalla um aðgerðir sem gagnast fólki sem byggir einmitt heimili. Mér finnst þetta hártogun og ég verð að segja að ég er líka hissa á hv. þingmönnum að tala með þeim hætti sem þeir gera, að láta eins og það komi heimilum ekki við og skipti þau ekki máli að hér sé verið að gera það sem er verið að gera. Það er kannski eitt eða tvennt sem Samfylkingin vill gera sem skilgreinir heimili og þá væri bara fínt að fá að vita það. Það hefur verið rætt um að það eru aðgerðir vegna húsnæðismála sem tilheyra líka lífskjarasamningum og öðru slíku sem er verið að vinna og það flokkast væntanlega undir heimili. Það er nokkuð sem við eigum eftir að takast á við mjög fljótlega.

Varðandi atvinnuleysisbæturnar skildi ég vissulega hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson þannig að hann vildi frekar setja námsmenn á atvinnuleysisbætur en að búa til störf, m.a. sumarstörf. Þar sem hann hefur jafnframt skrifað um málið hef ég ekki skilið hann með öðrum hætti. Mér finnst bara að það eigi að vera forgangsatriði að skapa störf. Ég get alveg tekið undir að þetta eru afskaplega lágar bætur. Við erum öll sammála um það og höfum verið það mjög lengi. Ég vona svo sannarlega að innspýtingin sem verið er að setja til Suðurnesja verði til þess að við verðum með sem allra fæst fólk á bótum. Kannski á eftir að koma eitthvað meira, kannski verða búin til fleiri og fleiri störf. Munum svo að þótt bæturnar séu sannarlega lágar er það líka sveitarfélaganna að grípa fólk sem á í erfiðleikum, ekki bara ríkisins. Mér finnst einmitt hafa verið talað eins og ríkið eitt eigi að bjarga öllu því sem bjarga þarf (Forseti hringir.) en ekki sveitarfélögin. Þau taka að vísu á sig tekjufall eins og ríkið en sannarlega ekki með sambærilegum hætti. Mér finnst skrýtið að ætla að útiloka þau frá því að taka þátt í þessu vegna þess að þau þurfa að leggja til fjármuni.

(Forseti (ÞorS): Enn leggur forseti áherslu á það að hv. þingmenn virði tímamörk.)