150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[15:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég er alveg sammála því að við höfum unnið vel saman í þinginu að því að reyna að finna lausnir sameiginlega. Það er eitt af því sem við þurfum að gera og ég tók líka fram áðan að það verði einhverjir sem fá ekki vinnu og falla einhvers staðar á milli í öllu því sem við erum að gera. Við þurfum að bregðast við því.

Varðandi atvinnutækifæri og annað sem þingmaður fór yfir í sambandi við heimilin og hvað þyrfti að gera er nokkuð sem við tökum enn frekar fyrir í þeim pakka sem fram undan er, eins og ég benti líka á. Við þekkjum það í sambandi við lífskjarasamninginn. Ekki hafa komið fram neinar konkret tillögur um hvað það er nákvæmlega sem við eigum að gera. Sveitarfélögunum hefur verið uppálagt að koma til móts við fyrirtæki vegna fasteignagjalda. Ekki hefur verið léð máls á því að gera það gagnvart íbúum (Forseti hringir.) þannig að það er eitt af því sem við þurfum líka að velta fyrir okkur, hvort ríkið eigi að borga það eða hvort sveitarfélögin verði að taka þann skell. (Forseti hringir.) Það er bara eitt af því sem við getum verið sammála eða ósammála um.

(Forseti (ÞorS): Forseti brýnir enn fyrir þingmönnum að virða tímamörk.)