150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vildi aðeins koma inn á stuðningslánin við hv. þingmann. Ég nefndi í ræðu minni áðan að það lítur svo út sem þær efnahagsaðgerðir sem voru kynntar í gær af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna gagnist fyrst og fremst litlum fyrirtækjum. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan að svo væri ekki, að stærri fyrirtækin gætu nýtt sér hlutabótaleiðina, og síðan nefndi hún brúarlánin sérstaklega. Það er rétt að halda því til haga að Seðlabankinn er ekki búinn semja við fjármálafyrirtækin um brúarlánin þannig að þau eru ekki komin í gagnið og óvíst hvernig sú framkvæmd kemur til með að takast. Ég hef heyrt ávæning af því að bankarnir séu ekki sérlega spenntir fyrir þessum samningi en það á eftir að koma í ljós.

Stuðningslánin eru kannski stærsti hlutinn af þessum aðgerðum. Þetta er jákvæð og mikilvæg aðgerð, ég tek alveg undir það, en þó næst með henni einungis til fyrirtækja sem hafa u.þ.b. 15% viðskipta í hagkerfinu sé litið til veltunnar. Eftir standa þá þau 85% sem geta ekki nýtt sér þetta úrræði. Það er alveg ljóst að þessi stuðningslán þurfa að ná til fleiri fyrirtækja og þess vegna langaði mig að spyrja um skoðun þingmannsins á því. Hv. þingmaður nefndi hér að í deiglunni væri annar aðgerðapakki og ég spyr: Er ekki hægt að stíga þetta skref stærra og meira strax í upphafi frekar en að bíða eftir einhverjum blaðamannafundum þar sem verið er að kynna ný og ný úrræði?

Mig langar hvað sem öðru líður (Forseti hringir.) að heyra álit þingmannsins á því hvort stuðningslánin þurfi ekki að ná til fleiri fyrirtækja.