150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg rétt að í þessari aðgerð er ekki undir risastór hópur í prósentum talið en eins og ég segi vorum við í fyrri aðgerðinni að reyna að mæta stærri fyrirtækjum. Við eigum eftir að sjá hvernig það gengur eftir og það er eitt af því sem skiptir máli, að hlutirnir fái að virka. Ef þeir virka ekki þurfum við kannski að grípa aftur inn í.

15% fyrirtækja eru gríðarlega margir einstaklingar, þarna undir eru gríðarlega margir sem hafa lífsviðurværi sitt af þeim fyrirtækjum. Þeir eru dreifðir um allt land og mér finnst skipta mjög miklu máli að þessum fyrirtækjum sé gert kleift að halda áfram, hvort sem það eru einyrkjar, tíu manns eða hvað það nú er. Ég er samt alveg sammála því að það þarf að reyna að hraða þessu með brúarlánin til að við sjáum hvort þau virki fyrir eins marga og lagt var upp með að þau gætu gert.

Varðandi útvíkkun á þessu úrræði verður nefndin að taka það fyrir, sjá hvað er verið að tala um í útvíkkun og hvað það myndi kosta. Erum við að tala um að bæta fjármunum í aðgerðina til viðbótar eða erum við einungis að tala um að útvíkka úrræðið? Þá held ég að lítið yrði orðið eftir. Miðað við uppleggið ímynda ég mér að þingmaðurinn myndi leggja til að verulegum fjármunum yrði bætt í. Ég hef ekki yfirsýn yfir hve miklu þyrfti að bæta við ef við ætluðum að útvíkka þetta og ná til X margra fyrirtækja sem væru innan ákveðinnar veltu en væru samt töluvert fyrir ofan það sem hér er undir. Kannski hefur þingmaðurinn einhverjar upplýsingar um það. Þetta er nokkuð sem nefndin tekur væntanlega fyrir. Þetta hefur verið gagnrýnt og væntanlega verða fengnir aðilar til umsagnar um það.