150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni að hlutabótaúrræðið hefði alveg augljóslega gagnast ágætlega að mjög miklu leyti og skipt gríðarlega miklu máli. Það var eitt ágreiningsefni eins og við þekkjum, og fór í fjölmiðla, hvort nota mætti það í uppsagnarfresti. Niðurstaða og túlkun Vinnumálastofnunar var að svo væri ekki. Ég veit að núna er verið að skoða hlutabótaúrræðið og fleira hjá félagsmálaráðuneytinu sem veltir því upp hvort það sé heppilegasta leiðin til að hjálpa fyrirtækjunum með uppsagnarfrestinn eður ei. Við erum öll meðvituð um að stór ferðaþjónustufyrirtæki sem sjá fram á afar dapurlegt og jafnvel ekkert ferðasumar og jafnvel lítið hreinlega á þessu ári þurfa að segja upp fólki fljótlega, eins og hv. þingmaður segir réttilega. Mér hefur skilist að það eigi að liggja fyrir eitthvað varðandi þá hluti fyrir mánaðamótin. Ég vona að það gangi eftir. (Forseti hringir.) Eins og ég segi skil ég að það þurfi að gerast því að það er til lítils að vera með fólk á hlutabótaleið (Forseti hringir.) ef engin er innkoman því að þá er ekki heldur hægt að borga 25% laun. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort þessi leið er sú réttasta en a.m.k. er verið að skoða málin.