150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga á vorþingi 2020. Þetta frumvarp á sér samspil við tvö önnur frumvörp sem verða væntanlega eftir 1. umr. til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd, annars vegar um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs. Hér er um að ræða annan fjárauka á skömmum tíma. Venjulega afgreiðum við fjáraukalög til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum og hefur þá verið beitt úrræðum, eins og talað er um í lögum um opinber fjármál, eins og millifærslum, varasjóðum málaflokka og almenna varasjóðnum sem er ætlað að mæta öllum helstu frávikum frá gildandi fjárlögum. En hér er ekki um að ræða nein venjubundin frávik eða úrræði sem mögulegt er að mæta með hefðbundnum tækjum. Það er engu að síður mjög mikilvægt að hér köllum við eftir heimildum til að bregðast við ástandi sem er óhjákvæmilegt að bregðast við. Það er ekki síður mikilvægt í því samhengi að við tökumst á við þetta ástand í jöfnum skrefum og ég hef beinlínis hvatt til þess að skrefin verði fleiri en færri, virðulegi forseti. Ég tel að það sé afar skynsamlegt vegna þess að ef það er eitthvað sem allflestir ef ekki allir greiningaraðilar eru sammála um, þar sem maður sem ber niður, hvort sem er hérlendis eða erlendis, er það óvissan. Samhliða því að við erum að verja heilbrigðiskerfið og tryggja að það geti tekist á við stöðuna, eins og lítur út fyrir að okkur sé að takast, erum við að takast á við fullkomna óvissu. Samhliða kemur mikill efnahagslegur skellur sem orsakast bæði af því að hér stöðvast mikið til efnahagsstarfsemin og svo beinlínis af völdum aðgerða til að ná tökum á stöðunni.

Myndin raungerist eftir því sem fram vindur en óvissan er enn mikil þegar kemur að efnahagslegu stöðunni og raunar veirunni enn sem komið er. En þetta er jafnframt háð þeim tíma sem það tekur, það er óvissa um hvað það mun taka langan tíma að koma öllu af stað og í venjubundið horf. Við segjum gjarnan að í þeim efnum erum við öll almannavarnir og ég held, virðulegi forseti, að við ættum að hugsa um ríkisfjármálin eins. Um leið og við erum öll almannavarnir erum við öll ríkissjóður. Við megum ekki gleyma því þegar við tökumst á við þessa stöðu hvert hlutverk ríkissjóðs er alla jafna, þ.e. að standa undir almannaþjónustu sem er svo mikilvæg og sinna sínu hlutverki til að halda jafnvægi í efnahagsmálum. Þegar maður horfir til þess skiptir miklu máli að þær ákvarðanir sem við tökum hverju sinni til að bregðast við ástandinu verndi efnahagshringrásina eins og kostur er. Það eru tvær grunnstoðir í þessari hringrás. Það eru fyrirtækin annars vegar og það eru heimilin hins vegar. Við getum ekki rætt þetta án þess að það sé fullkomlega samofið. Þetta er tvöföld hringrás eins og við þekkjum, vinnuaflið, framleiðslutækin sem skapa verðmæti, vinnulaunin eru síðan notuð til að kaupa vöru og þjónustu og þannig verða verðmætin til og eru mæld og þetta er svo mikilvægt við þessar aðstæður. Þetta eru allar þjóðir meira og minna að gera, að verja þar sem hægt er afkomu heimila og fyrirtækja í gegnum þetta ástand.

Sú gagnrýni sem hefur verið uppi að það sé ekki verið að gera nóg er umhugsunarverð að því leytinu til að um leið og við segjum að nóg sé ekki nóg þurfum við að setja það í samhengi. Svo sannarlega held ég að við öll, sem erum á sama báti við að takast á við þetta, viljum gera nóg, viljum tryggja sem best að allir komist í gegnum þetta, hvort sem það eru fyrirtækin, heimilin eða fólkið eða hvaða hugtök eru uppi í þeim efnum. Um leið verðum við að gæta að þanþoli ríkissjóðs og sjálfbærni inni í framtíðinni. Þetta er einhver jafnvægislist sem við verðum að huga að. Í þeim greiningum sem ég hef náð að kynna mér, virðulegur forseti, er lögð mikil áhersla á það að um leið og við reynum að vernda og verja og veita viðspyrnu inn í framtíðina verði hagkerfið tilbúið þegar við förum á fulla ferð. Auðvitað er engin önnur raunveruleg lausn en sú þegar við afléttum takmörkunum og förum að ferðast og hittast og nota þá þjónustu sem fyrirtæki og fólk veitir í hvaða formi sem það er. Við verðum líka að skoða þetta í samhengi við aðgerðir annarra aðila í efnahagskerfinu. Við erum með tvær grunnstoðir sem eru heimili og fyrirtæki, en við erum líka með fjármálafyrirtækin sem mynda eina stoð í efnahagshringrásinni og við erum með hið opinbera, og hlutverk okkar er æðimikið í þessari stöðu, og svo eru það viðskipti við útlönd. Þetta eru fimm stoðir í hringrásinni eða efnahagseiningar, getum við kallað þær. Þegar við tölum um umfang aðgerða og segjum að nóg sé ekki nóg þá er alltaf spurning í hvaða samhengi við setjum það umfang. Er það eitthvert hlutfall af heildarverðmætasköpuninni? Horfum við til gildandi fjárlaga? Gleymum því ekki að við erum hér að halda dampi með gildandi fjárlög. Við erum með 1.000 milljarða í vinnu á árinu. Það virkar þannig að við erum að slaka á aðhaldi í ríkisfjármálum og ríkisfjármálin vinna þannig jákvætt og með sem sjálfvirkustum hætti, sem er alltaf heilbrigðast í öllum hagkerfum, alveg sama hvaða staða er uppi. Það er líka mikilvægt.

Varðandi aðgerðapakkann sem við erum með hér þá hefur maður hefur séð til að mynda í þeirri skýrslu sem OECD hefur gefið út um samanburð aðgerða á milli þjóða að fyrstu viðbrögðin voru að verja afkomu heimila og fyrirtækja. Menn sáu ekkert út úr þokunni þegar þetta skall á hverri þjóðinni á fætur annarri, misjafnlega í tíma. Næstu aðgerðir víðast hvar hafa verið að grípa þá hópa sem einhverra hluta vegna eru á öðrum stað en í hinu hefðbundna formi, að launþegi þiggi vinnulaun og nýti vinnulaun til að standa undir hefðbundnum útgjöldum heimilis. Þessi pakki er þannig. Hér eru í beinum útgjöldum 13,2 milljarðar sem skiptast þannig að megnið fer til félagslegra aðgerða. Við erum að setja meira í nýsköpun. Það gerðum við líka í síðasta pakka. Það er viðspyrnan og er mjög mikilvægt, ég er sammála öllum þeim sem hafa komið vel inn á það í dag í góðri 1. umr. Það fara 2,3 milljarðar í nýsköpun og það spilar saman við það mál sem fer til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem bæði er um að ræða að lyfta þakinu og hækka endurgreiðsluhlutfall. Svo fjalla nefndirnar um það hvort skynsamlegt sé og í takt við stefnu og áætlanir og ástandið að auka það jafnvel enn frekar. Svo er um að ræða lokunarstyrki upp á 2,5 milljarða til að bæta þeim aðilum tekjutap sem hafa orðið að loka, hafa þurft að taka þannig þátt að taka þá erfiðu ákvörðun að loka hreinlega alveg og missa allar sínar tekjur af þeim sökum. 2,5 milljarðar fara í það.

Hv. fjárlaganefnd mun auðvitað fjalla um fjáraukann og þá fáum við tækifæri til að fara yfir rökin á bak við allar þessar fjárhæðir og útfærsluna með ráðuneytum og þeim aðilum sem hafa teiknað upp þessi frumvörp. En svona er þetta í grunninn og er alveg í takt við það sem aðrar þjóðir eru að gera.

Þegar ég tala um umfang þá get ég dregið hér fram, virðulegi forseti, að fjárfestingarpakkinn sem fylgdi fyrsta aðgerðapakkanum er þriðjungur af opinberum fjárfestingum gildandi fjárlaga á þessu ári. Það er verulegt í fjárauka og bara fáheyrt að sjá svoleiðis aðgerð og ég myndi segja að hún sé mikil að umfangi, ef við erum að tala um umfang. Það skiptir máli í hvaða samhengi við setjum þessa hluti. En nú bíður vinna við þennan aðgerðapakka og þau tvö önnur frumvörp sem við ræðum síðar í dag og fara til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Óvissan er sannarlega mikil enn þá og í besta falli er hægt að finna sviðsmyndir. Það má ráða af alþjóðlegum sviðsmyndum, AGS var til að mynda með sviðsmynd um daginn, og innlendum líka, að vestræn hagkerfi munu mögulega þola, í neikvæðari sviðsmyndum, um 7–10% samdrátt af vergri landsframleiðslu. Það er veruleg sveifla frá þeim spám sem við vorum að skoða fyrir bara mánuðum síðan. Þetta er því ekki bara mikill samdráttur heldur gerist hann mjög snögglega. Í þriðja aðgerðapakkanum, sem ég reikna með að verði og auðvitað verður fjárauki með haustinu þegar við þurfum að grípa allar þær aðgerðir sem snúa að vinnumarkaðnum, má gera ráð sértækari aðgerðum, ef marka má taktinn sem við sjáum annars staðar, t.d. á Norðurlöndum. Þær verði greinabundnari, „sektora“-bundnari, virðulegi forseti, til að mynda gagnvart sérstökum atvinnugreinum og gagnvart stöðu atvinnugreinar sem mikið hefur verið rætt um í dag, ferðaþjónustunnar. Það sem ég sakna í þeirri umræðu og kalla eftir er flokkun á því sem við getum kallað kjarnaþjónustu í ferðaþjónustugeiranum. Þetta er flóknari atvinnugrein en margar aðrar vegna þess að hún er samsett af svo mörgum ólíkum fyrirtækjum. Jafnvel eru fyrirtæki í verslun og þjónustu sem 80% reiða sig á verslun við ferðamenn.

Mikilvægast er hins vegar að allar aðgerðir sem við förum í séu markvissar og beinist að vernd og viðspyrnu og séu raunveruleg viðbrögð við þeim krísuaðstæðum sem við erum í og fari sem mest (Forseti hringir.) í þá farvegi sem við erum í. (Forseti hringir.) Vörumst allar miklar kerfisbreytingar og einbeitum okkur að því að bregðast við ástandinu.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á orð sín hér áðan um tímamörk.)