150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:30]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þetta eru nú ekki léttvægar spurningar. Við höfum auðvitað alltaf verið að leitast við að lækka skatta og álögur á fyrirtæki og tryggingagjaldið er einn af þessum sköttum eða skattstofnum sem eru erfiðir af því að þeir reiknast af launum og eru íþyngjandi þáttur í rekstri fjölmargra fyrirtækja, sérstaklega þeirra sem eru vinnuaflskrefjandi. Það hefur verið, veit ég, til skoðunar. Hlutabótaleiðin hefur kannski verið stærsta aðgerðin og ég held að það sé óhjákvæmilegt að horfa til einhvers konar útvíkkunar hennar. Við erum í næstu skrefum að ná til þeirra hópa sem hafa einhvern veginn fallið á milli skips og bryggju og eru í þeirri stöðu, eins og við þekkjum með námsmenn, með verktaka ýmiss konar o.s.frv., sem eru í nokkrum störfum. Þannig að svarið er já, við skoðum þetta áfram. Ég get ekki svarað því öðruvísi.