150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og góðs gengis með að útfæra þetta. Það er tvímælalaust þannig að okkar afstaða í Viðreisn er að það er margt ágætt en það þarf að gera miklu, miklu meira. Mér finnst eins og orð fjármálaráðherra fyrir sex vikum um að það verði að gera meira heldur en minna hafi svolítið gleymst og ég er ekki að segja þetta bara út frá mínu hjarta. Ég fæ líka skilaboð og ég les fréttir og umsagnir ferðaþjónustuaðila um land allt, fyrir vestan, ferðaþjónustufyrirtæki hér og það er ákall eftir meiri aðgerðum. Ég get tekið undir að það er hægt að fabúlera um hvenær sé nóg og þá spyr ég: Er það nóg þegar ríkisstjórnarflokkarnir fella allar tillögur stjórnarandstöðu en ætla sér síðan að samþykkja sömu tillögur? Er eitthvað sem var allt of mikið síðast orðið nóg í dag?