150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir stendur að það sem var kannski mest ákall um síðast var m.a. að auka fjármagn til nýsköpunar og það var fellt. En ég vil fagna því sérstaklega að það er komið núna. Nú eru Norðmenn að leggja allt að 1,6% af vergri landsframleiðslu í beina styrki, Danir eru að auka það í 1,9% og Þjóðverjar af öllum, kaþólskari en páfinn varðandi öflug ríkisfjármál, eru að spýta inn 2,7% af vergri landsframleiðslu af eigin fé í fyrirtækin. Sér hv. þingmaður það fyrir sér að ríkisvaldið muni í næstu aðgerðum, ef málið tekur ekki breytingum í þinginu, koma með beinskeyttari hætti inn í það að styðja við fyrirtækin? Við megum ekki við því að þegar kemur að viðspyrnu verðum við búin að veikja íslenskt efnahagslíf og atvinnulíf það mikið að viðspyrnan verði ekki til staðar. Lykilatriðið fyrir okkur núna, til þess að verja störf, til þess að verja lífsviðurværi fólks sem skiptir öllu máli, er að verja fyrirtæki. (Forseti hringir.) Ég óttast það að ef aðgerðirnar verða ekki meiri en nú er verið að boða verði viðspyrnan lengri og erfiðari fyrir Íslendinga fyrir vikið.