150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir. Við náðum ekki lengra með nýsköpunina síðast en að auka verulega fjármuni í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð. En við erum í þetta skiptið að hækka þakið og endurgreiðsluhlutfallið og við erum algerlega sammála því og það var sárt að hafa ekki fastara land undir fótum með greiningum þá. Það var ekki af því að ekki væri vilji til þess. Það er bara við þann sem stendur hér að sakast, algerlega. En viljinn er klárlega til staðar og ég fagna því með hv. þingmanni að við séum að fara þangað.

Já, ég tel að við þurfum að horfa til þess að atvinnulífið, að fyrirtækin, heimilin, að allir séu tilbúnir þegar við förum og heimurinn fer á fulla ferð í það sem við getum kallað venjubundnara ástand. Förum að hittast, förum að ferðast, kaupa þjónustu. Það kallar auðvitað á (Forseti hringir.) frekari greiningar á atvinnugreinum, (Forseti hringir.) hver staðan er og að við komum inn með sterkari hætti.