150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu og mér finnst hún mjög góð. Óvissa mun alltaf verða uppi og það er okkar hlutverk að draga úr óvissu. Óvissa mun alltaf koma með misjafnlega sterkum hætti inn í líf okkar og þess vegna erum við með áætlunargerð og stefnu, til að við sveiflumst ekki til með því þegar hlutir breytast, til að við höldum kúrsi eins og skipverjinn myndi kalla það. Óvissan í dag markast svolítið af því að það eru í raun og veru engar greiningar til. Menn treysta sér ekki í þessar eiginlegu greiningar sem módelin eiga að grípa, hin hefðbundnu hagfræðimódel, til að segja okkur fyrir um hver landsframleiðslan verður þannig að menn eru bara að teikna upp sviðsmyndir, ólíkar (Forseti hringir.) sviðsmyndir eftir því hvernig veiran þróast. (Forseti hringir.) Þess vegna tel ég að við séum að gera rétt með því að taka þetta í smærri bitum og skrefum eftir því sem við eyðum óvissunni.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir enn á tímamörk.)