150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við eyðum einmitt óvissunni með þeim málum sem við erum að fjalla um í dag. Á bak við þessi mál, eins og hv. þingmaður segir, er ekki svo mikið af sviðsmyndagreiningum. Við erum í raun og veru að giska eins og við höfum alltaf gert. Það er reynsla mín af starfi í fjárlaganefnd að við fáum aldrei greinargóð svör um það af hverju það er þessi upphæð eða þessi mælikvarði eða þetta verkefni fram yfir eitthvert annað. Lögum um opinber fjármál er ekki fylgt í því að það eigi að bera saman mismunandi sviðsmyndagreiningar. Þess vegna velti ég því einfaldlega fyrir mér: Þegar það er óvissuástand eins og einmitt núna og við erum hvort eð er að giska, af hverju giskum við ekki nægilega vel til að eyða óvissunni þeim mun meira? Lítið gisk á móti stóru giski. (Forseti hringir.) Þegar allt kemur til alls, eins og ég hef sagt, er þetta fjárheimild en ekki fjáreyðsluheimild.