150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við þessa 1. umr. um fjáraukalög langar mig að koma inn á sex atriði úr frumvarpinu en ég ætla að hafa smáinngang að því um útspil gærdagsins almennt og stöðuna sem hefur verið að teiknast upp síðustu vikurnar. Ég held að það sé engum ofsögum sagt að fyrir býsna marga hafi kynning gærdagsins á svokölluðum öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar verið gríðarleg vonbrigði. Aðilar í þeim geira sem mest hafa fundið fyrir áhrifum faraldursins áttu sannast sagna von á mun viðameira útspili hvað þeirra rekstrarumhverfi varðar í gær en raunin varð. Það að í beinu framhaldi af kynningarpakka á aðgerðapakka tvö sé því flaggað að vænta megi þess að ýmislegt verði skoðað betur í aðgerðapakka þrjú er mönnum ekki mikil huggun núna, fjórum, fimm dögum fyrir launaútborgun næstu mánaðamóta. Óvissan er alveg gríðarleg og ég kalla eftir því að okkur þingmönnum verði hið fyrsta sýndar þær sviðsmyndir sem stjórnvöld hafa dregið upp, ef sú vinna hefur átt sér stað.

Veltum upp þessari spurningu: Ef ekki verður gripið til neinna aðgerða, hversu mörg ferðaþjónustufyrirtæki lifa af? Allar reglur óbreyttar, lífið hefði gengið sinn vanagang fyrir utan það að þau færu flestöll á hausinn? Það þarf ekki að vera útgefin yfirlýsing en ég held að stjórnvöld þurfi að stilla upp þeim sviðsmyndum þar sem markmið eru römmuð inn. Nú hefur hæstv. iðnaðar- og ferðamálaráðherra ítrekað sagt í viðtölum að ekki verði öllum bjargað og það er auðvitað bara eins og í lífinu sjálfu, fyrirtæki verða gjaldþrota, ég ætla ekki að segja daginn út og inn í eðlilegu árferði, en mjög reglulega fáum við fréttir af því að fyrirtæki hafi orðið gjaldþrota og það er bara hluti af því að standa í rekstri. En sú staða sem uppi er núna er svo fordæmalaus að það réttlætir allt aðra nálgun en hefðbundið er. Ég kalla eftir því að okkur í stjórnarandstöðunni verði gerð grein fyrir þeim sviðsmyndum sem ríkisstjórnin hefur teiknað upp. Þó að allir séu að gera sitt besta núna og það sé margt í gangi er engu að síður rúmur mánuður síðan fyrsti kynningarfundur á fyrsta pakka ríkisstjórnarinnar var í Hörpu þannig að það er alveg kominn tími til að leggja spilin á borðið svo að menn viti hvert ríkisstjórnin ætlar sér. Eftir þau vonbrigði sem margir urðu fyrir í gær, þar sem reiknað var með því að gærdagurinn yrði sá dagur sem óvissan myndi minnka, held ég að mikilvægast sé núna að stjórnvöld sannfæri bæði fyrirtæki, atvinnulífið í heild sinni, og heimili um að þau hafi eitthvert plan, þó að það sé súrt og kosti mikið, eitthvert plan um hvernig þau ætla að komast til lands. Ef það er engin sannfæring fyrir því að atvinnulífið komist til lands í þessum hremmingum þá munu þeir sem hafa svigrúm til að setja viðbótar eigið fé inn í fyrirtæki sín, ekki gera það ef það er bara upp á von og óvon að stjórnvöld sjálf viti hvert þau ætla að fara hvað úrlausn málsins varðar.

Þetta er það sem ég vildi hafa sem inngang í tengslum við þetta frumvarp um fjáraukalög. Það eru sex atriði í frumvarpinu sem mig langar að koma sérstaklega inn á og óska þar með eftir, þar sem tilefni er til, að þau atriði verði rædd sérstaklega í nefnd milli 1. og 2. umr.

Í fyrsta lagi eru það lokunarstyrkir til fyrirtækja sem verða að hætta starfsemi vegna sóttvarna. Ég vil fagna þessari tillögu. Ég á erfitt með að átta mig á þeim forsendum sem gefnar eru varðandi ætlaðan fjölda aðila. Það virðist vera þak á heildarútgjöldum. Ég tek þeim tölum sem settar eru fram hvað þessa hluti varðar með smáfyrirvara eftir tölurnar sem sýndar voru í tengslum við hlutabótaleiðina í fyrsta aðgerðapakka stjórnvalda þar sem reiknað var með því í frumvarpinu að heildarkostnaður við hlutabótaleiðina yrði 758 milljónir plús tveir tímabundnir starfsmenn ríkisins. Það endar einhvers staðar langt fyrir ofan um 22 milljarða eins og það lítur út núna. Hér er reiknað með að það verði um 2.000 aðilar sem njóti þessara lokunarstyrkja. Þetta er bara sanngirnismál og ég er ánægður að það sé komið fram, svo maður hrósi líka því sem vel er gert.

Í öðru lagi langar mig að nefna stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þarna er reiknað með að um 8.000–10.000 aðilar uppfylli þau skilyrði sem sett eru fram og horft til þess að lánin verði veitt til fyrirtækja sem eru með innan við 500 milljónir í veltu. Svo við tökum bara dæmi úr ferðaþjónustunni, af því að það er sá geiri sem mest brennur á þessar vikurnar, þá er ekki ólíklegt að ferðaþjónustufyrirtæki með 500 millj. kr. veltu sé með 250 milljóna launaveltu af þeirri upphæð, 50% launahlutfall er algengt í ferðaþjónustunni. Fyrir fyrirtæki sem er með 250 milljóna launaveltu meðan allt er á fullu, eru launagreiðslur þegar það er búið að setja alla starfsmenn sína í 25% starf rúmar 5 milljónir á ári. Hámarkslánsupphæðin í þessu tilviki gerir því ekki annað en að tomma laun einna mánaðamóta, laun eins mánaðar fyrir starfsmannafjöldann í 25% starfi. Og þá á eftir að greiða allan annan kostnað sem á fyrirtækjunum hvílir, hvort sem það er húsaleiga, tryggingar eða annar rekstur, hvaðeina. Það blasir við að sú nálgun sem var í kynningu stjórnvalda í gær hvað þetta varðar er því miður mjög óraunsæ, sérstaklega hvað varðar þau fyrirtæki sem eru í efri hluta tekjumarkanna innan þessarar leiðar. Vissulega skiptir þetta minni fyrirtæki hlutfallslega miklu meira máli. Það verður líka í nefndinni að huga að þeim fyrirtækjum sem eru virkilega búin að reyna og grípa til allra leiða til að bjarga sér, þá er ég kannski sérstaklega að hugsa um veitingastaði í því samhengi. Þarna er sett fram krafa um 40% tekjufall og það verður að tryggja það í hv. fjárlaganefnd við meðferð þessa máls að vegna þessa viðmiðs lendi fyrirtæki ekki í þeirri stöðu að þau hafi útilokað sig frá þeirri lausn með því að berjast með öllum tiltækum ráðum, eins og t.d. veitingastaðir með sitjandi þjónustu sem hafa farið í heimsendingar og þar fram eftir götunum. Það væri bölvað, svo ég orði það bara þannig, ef fyrirtæki sem hafa með slíkum lausnum reynt að bjarga því sem bjargað verður og náð að koma sér í þá stöðu að tekjufallið væri bara 35% eða 38%, útilokast þar með frá leiðinni. Það hefði verið betri valkostur fyrir slíkan aðila að sitja með hendur í skauti og bíða upp á von og óvon um að einhver lausn kæmi. Það þarf að hafa svigrúm til að líta til þessa í nefndinni og ég vísa því til þeirrar vinnu sem fram undan er.

Þriðja atriðið sem mig langar til að nefna er heimild fyrirtækja til að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020. Ég vil fagna útfærslunni á þessari leið. Þetta er leið sem hefur verið farin m.a. í Noregi. Hún er einföld og hún er sanngjörn og hún skiptir máli hvað peningaútflæði fyrirtækja innan ársins varðar. Þetta eru sérstaklega fyrirtæki sem eru lífvænleg, þó að ég reyni að forðast notkun þess hugtaks þessa dagana. Þetta eru fyrirtæki sem voru með það góðan rekstur í fyrra að þau horfðu fram á að borga tekjuskatt af þeim hagnaði sem þar myndaðist á þessu ári. Þetta eru þau fyrirtæki, sem njóta þessarar leiðar, sem má segja að séu fremst í röðinni að líkindum hvað það varðar að eiga tækifæri á því að vera í góðri stöðu til öflugrar sóknar þegar þessu ástandi léttir. Ég vil fagna þessu og tel þetta góða leið.

Fjórða atriðið sem ég vil nefna við 1. umr. eru álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna Covid-19. Ég vil, eins og með síðasta atriðið sem ég nefndi, fagna þessari tillögu en um leið minna á að nokkurn veginn samhljóða tillaga var felld hér í þingsal með meiri hluta atkvæða fyrir þremur vikum. Við skulum ekki láta það trufla okkur í dag, þetta er bara mjög gott mál. En það er eitt í þessu, ég veitti því athygli að á bls. 12 og á bls. 30 í frumvarpinu eru sundurgreindir fjárlagaliðirnir sem þarna eru undir og samtalan nær ekki upp í nema 850 milljónir, annars vegar í sérhæfða sjúkrahúsþjónustu 750 og síðan í almenna sjúkrahúsþjónustu 100. Ég kalla eftir því að fá upplýsingar um hvort þær 150 milljónir, sem vantar inn í þessa lausn, séu tilgreindar annars staðar í þessu regluverki. Ég sá það ekki í fljótu bragði. Milljarður er talan sem hefur verið vísað til hvað þetta atriði varðar. Það er eitt atriði sem ég vil nefna hér og tryggja að tekið verði til skoðunar í nefndinni. Það er hvort ekki er öruggt að starfsmenn hjúkrunarheimila og annarra fyrirtækja undir þaki Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem mikið hefur mætt á undanfarið séu hluti af þeim hópi sem fær þessar álagsgreiðslur. Eins og þetta liggur í frumvarpinu sýnist mér fjárveitingarnar, allar þessar 850 milljónir sem ég finn, snúa að opinbera heilbrigðiskerfinu. Það má vera að þær 150 milljónir sem vantar upp á séu ætlaðar til greiðslu til þriðja geirans, sem stundum er kallaður svo. Ég vil bara að það sé haft í huga og tel að það sé algerlega nauðsynlegt að tryggja að þeir mikilvægu starfsmenn sem starfa m.a. á hjúkrunarheimilum landsins og tengdum stofnunum, framlínustarfsmenn sem eru sannarlega að vinna með og vernda okkar veikustu hópa þessar vikurnar og mánuðina, þá hópa sem eru í mestri hættu ef smit fer af stað, gleymist ekki hvað þá lausn varðar.

Fimmta atriðið sem mig langaði að nefna við 1. umr. er efling matvælaframleiðslu með nýsköpun og markaðssetningu. Ég vil fagna því að lagðar séu 500 milljónir í nýsköpun í matvælaframleiðslu en ég vil flagga efasemdum um að það sé skynsamlegt að gera það með stofnun nýs sjóðs. Hér er ætlunin að stofna nýjan sjóð, svokallaðan Matvælasjóð, og leggja niður á sama tíma Framleiðnisjóð landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóð í sjávarútvegi. Ef viljinn er til að koma þessum 500 milljónum í vinnu hvað þá þróun varðar í sjávarútvegi og landbúnaði þá eru þær leiðir til, til að koma þessum peningum í vinnu nú þegar. Ég held að það ætti að nota þær til að koma þeim peningum í vinnu, ekki að leggja í þá vinnu núna að setja nýjan sjóð á laggirnar. Menn virðast margir hverjir vera búnir að gleyma því að það var frumvarp í þinginu sem var fellt niður öðrum hvorum megin við áramótin sem hafði það einmitt sem eitt af markmiðum sínum að setja þennan Matvælasjóð á laggirnar. Að vel ígrunduðu máli var hætt við það. Ég er efins um að hugmynd sem þótti ekki nógu góð þegar þingheimur hafði nógan tíma til að hugsa um hana undir áramót og upp úr áramótum, sé allt í einu orðin alveg sérstaklega góð í Covid-ástandinu sem nú er við að glíma. Ég held að plan A í þessum máli ætti að vera að setja þessar 500 milljónir til eflingar matvælaframleiðslu í gegnum þá sjóði sem fyrir eru.

Sjötta atriðið sem mig langar að ræða snýr að fjárveitingum til fjölmiðla sem lagðar eru til upp á 350 milljónir og verða ræddar sérstaklega í máli á eftir. Ég vil bara flagga því hér að ég þekki ekki dæmi þess að ráðherra sé falin jafn rúm heimild til að ráðstafa fjármunum og lagt er upp með í þessu máli, sem verður, svo ég haldi því til haga, rætt hér á eftir innan svokallaðs bandorms sem fjármála- og efnahagsráðherra mælir fyrir. Ég held að nefndin verði að ganga þannig frá málum að það verði rammað inn í lagasetningu hvernig á því verður haldið, hvernig stuðningi við fjölmiðla verður háttað og þar fram eftir götunum. Það sé mun eðlilegra en það upplegg sem lagt er til í frumvarpinu sem verður rætt síðar í dag.

Að öðru leyti vona ég að þetta frumvarp vinnist vel í nefndinni og taki þeim breytingum sem þörf er á. En að endingu vil ég bara skora á ríkisstjórnina að láta vita af því hið snarasta að í næstu viku verði haldinn sambærilegur fundur þeim sem haldinn var í gær þar sem aðgerðapakki þrjú verði kynntur og tekinn til skoðunar (Forseti hringir.) því að m.a. ferðaþjónustan getur ekki beðið heilan mánuð eftir því að næsti pakki verði kynntur.