150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fá að hrósa þingmönnum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sem eru búnir að halda hér fínar ræður. Mér finnst gott að skynja þá alvöru að við erum öll áhyggjufull og að við viljum öll verða að liði. Mér finnst það skipta máli, mér finnst það mikilvægur tónn sem kemur úr þinginu. Ég vona að hann sé ekki einhliða af hálfu stjórnarandstöðunnar. Mér hefur ekki fundist það, a.m.k. ekki innan nefnda, þó að atkvæðagreiðslur í þinginu, m.a. í tengslum við fyrsta aðgerðapakkann, hafi gefið til kynna að ríkisstjórnin vildi aðgreina okkur skýrt í liðin stjórn og stjórnarandstöðu. Við í Viðreisn höfum ekki viljað nálgast verkefnið þannig, við höfum viljað sjá hvað hægt er að gera betur. Við höfum verið í samskiptum við fólk úti í samfélaginu í hinum ólíku atvinnugreinum til að átta okkur á nákvæmlega hvernig aðgerðirnar og tillögur ríkisstjórnarinnar hafa komið inn í fyrirtækin og heimilin.

Við styðjum eindregið það meginmarkmið sem hefur komið fram af hálfu forystu ríkisstjórnarinnar, að lykilatriðið er að tryggja lífsviðurværi fólks. Lykilatriðið er að taka utan um fólkið okkar og heimilin en það verður ekki slitið frá atvinnulífinu og því að til að verja lífsviðurværi þarf að verja störfin. Við þurfum að verja fyrirtækin. Það er lykilatriði þegar við erum í svona krísu, stöndum frammi fyrir kreppu sem við höfum aldrei séð áður. Við getum ekki lesið um þetta í sögubókum þannig að við þurfum annars konar aðgerðir. Það er m.a. þess vegna sem við í Viðreisn, og mér heyrist öll stjórnarandstaðan taka undir, minnum á orð hæstv. fjármálaráðherra sem féllu fyrir sex vikum: Gerum frekar meira en minna.

Við í Viðreisn erum sammála þeirri nálgun en það verður að segjast eins og er að síðan fyrsti aðgerðapakkinn var kynntur fyrir rúmum mánuði höfum við orðið fyrir vonbrigðum. Margt gott var gert þar. Við í stjórnarandstöðunni tókum m.a. í fyrstu skrefunum vel undir með ríkisstjórninni í því að laga stjórnarfrumvörpin varðandi hlutastarfaleiðina. Þau voru meingölluð þegar þau komu hingað inn en við lögðumst á árarnar og náðum að breyta frumvörpunum í ágætislög. Það var komið fram fyrir tveimur, þremur vikum að þá þegar þyrfti að breyta hlutastarfaleiðinni. Ég hélt í einfeldni minni að í þeim tillögupakka sem var kynntur í gær yrðu þær breytingar sem er verið að kalla eftir til að mæta raunverulegum þörfum atvinnulífsins til að geta haldið uppi störfum til lengri tíma fyrir fólkið þannig að starfsöryggið verði eitthvað meira.

Það var ekki og þess vegna verð ég að segja að þó að margt sé fínt í þessum tillögum munum við náttúrlega beita okkur fyrir því að þær taki breytingum. Við munum styðja tillögurnar en að okkar mati þurfa þær að taka breytingum. Við munum beita okkur í þá veru innan efnahags- og viðskiptanefndar, fjárlaganefndar og velferðarnefndar, leiða fram spurningar innan atvinnuveganefndar og hið sama gildir um allsherjar- og menntamálanefnd. Ef ekki verður hlustað munum við eðlilega koma með okkar tillögur til að breyta.

Ég talaði um margt gott. Ég vil strax nefna nýsköpunina. Með henni eru tekin mikilvæg skref og ég fagna þeirri stefnubreytingu af hálfu ríkisstjórnarinnar frá því að fyrsti aðgerðapakkinn var kynntur. Við munum að tillögur okkar í stjórnarandstöðunni voru felldar en ég er mjög glöð ef þetta er leiðin fyrir okkur til að ríkisstjórnin kveiki aðeins á perunni, þá er það bara fínt. Mér finnst gott að sjá mikilvæg skref í þágu nýsköpunar- og sprotafyrirtækja en það liggur líka ljóst fyrir að varðandi sprotafyrirtækin, lítil og meðalstór fyrirtæki, þurfa að eiga sér stað breytingar. Endurgreiðsluhlutfallið sem er gott að er hækkað úr 20% í 25% gildir og er í raun bara mikilvægt fyrir stóru fyrirtækin í nýsköpunar- og sprotageiranum. Við eigum að fara svipaðar leiðir og Norðurlöndin og Evrópusambandið og flokka þetta niður í þrjá hluta, þ.e. lítil, millistór fyrirtæki og stór fyrirtæki. Það er hægt að fara út í alls konar svona en ég vil einblína á stóru myndina. Þarna er margt gott en ég rek frekar augun í það sem er ekki þarna. Það er það sem veldur mér miklum áhyggjum eins og þjóðinni allri, það eru frekar óskýr skilaboð um hvað á að gera. Fæti er drepið niður víða en ekki tekið á stóru myndinni. Ég undirstrika að hlutastarfaleiðin nýtist vel en hún nýtist ekki nákvæmlega aðstæðum eins og þær eru í dag og henni þarf að breyta.

Brúarlán eru líka gríðarlega mikilvæg aðgerð en samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekkert enn komið af lánsfjármagni og það er liðinn heill mánuður síðan brúarlánin voru kynnt. Til að gæta sannmælis kláraði fjármálaráðherra fyrst samkomulagið í síðustu viku við Seðlabankann og bankana en ekki er enn byrjað að miðla brúarlánunum af neinu viti og neinu magni. Það segir mikið um það hvort þetta séu þær aðgerðir sem við þurfum núna á að halda. Þess vegna höfum við í Viðreisn verið að kalla sérstaklega eftir aðgerðum fyrir litlu og meðalstóru fyrirtækin, við lögðum m.a. síðast til tímabundna lækkun á tryggingagjaldi fyrir lítil fyrirtæki, allt upp í sjö manna fyrirtæki. Það var fellt en við erum enn þeirrar skoðunar að það þurfi tímabundnar aðgerðir í beinan stuðning. Ég greini það og það er eðlilegt að formaður fjárlaganefndar hafi varann á sér eins og hann var hér í ræðu áðan varðandi það að skuldsetja ríkissjóð of mikið. Það er rétt, við verðum að átta okkur á því að skuldsetning núna er framtíðarskattheimta á heimilin og fyrirtækin. Minna svigrúm verður fyrir okkur sem viljum frekar einfalt skattkerfi og lægri skatta til að fara þá leið. Það er lykilatriði í þessari fordæmalausu krísu að við gætum að tekjuhliðinni núna þannig að við verðum að fara í að styrkja viðspyrnuna í atvinnulífinu, styrkja einkageirann til að viðspyrna verði til staðar þegar þar að kemur. Ef við gerum það ekki, ef við förum ekki í stórtækar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjunum núna, eins og í ferðaþjónustunni, eins og annars staðar í kerfinu og í samfélaginu, þýðir það aukinn kostnað á velferðarhliðinni í gegnum atvinnuleysisbætur, í gegnum sálfræðiþjónustu, í gegnum ýmsa umönnun í tengslum við velferðarkerfið og við munum sjá tekjuhliðina minnka. Ef við förum ekki í aðgerðir til stuðnings fyrirtækjunum núna verður tekjuhliðin verri hjá ríkissjóði þegar fram í sækir og þá um leið minni möguleiki fyrir okkur til að trappa niður skuldahlið ríkissjóðs.

Það er gríðarlega mikilvægt frá okkar bæjardyrum séð að horft verði á mikilvægi þess að við séum ekki eingöngu með óbeinar aðgerðir. Eins og aðgerðirnar eru núna sýnist mér að af þessum 60 milljörðum sem er verið að setja fram séu u.þ.b. 70% í formi láns eða frestunar gjalda og skatta. Um 10% fara í beinar aðgerðir, viðspyrnu eins og mikilvægar aðgerðir, styrk til þeirra fyrirtækja sem var gert að loka á grundvelli veirunnar og síðan fara um 20% í verndaraðgerðir fyrir viðkvæma hópa. 70% af þessum aðgerðum upp á 60 milljarða sýnast mér fara í lán eða frestun aðgerða. Við megum ekki hafa umhverfið þannig að þegar við förum út úr viðspyrnunni séum við búin að setja viðbótarklafa á atvinnulífið, á einkageirann. Einkageirinn hefur vissulega minnkað sína skuldsetningu á síðustu árum en hann er samt skuldsettari en til að mynda í Bandaríkjunum og Bretlandi og er á svipuðu róli og ýmsar aðrar þjóðir. Hann hefur minnkað en skuldsetning atvinnulífsins hér er samt mikil miðað við annars staðar. Þess vegna verðum við að huga að því hvað hægt sé að gera. Ég sé það á skilaboðum og í samtölum að meðal ferðaþjónustufyrirtækja eru gríðarleg vonbrigði. Það er eins og a.m.k. hluti ríkisstjórnarinnar sé einhvern veginn búinn að gefast upp, að hann segi: Ókei, gott og vel, við ætlum bara að loka ferðaþjónustunni í 12 mánuði. Það eru þau skilaboð sem mér finnst ég lesa út úr þessum aðgerðum og þeim tón sem sleginn er af hálfu ráðherra í ríkisstjórn. Við sjáum hvað hér er til umræðu, í rauninni er ekki verið að fara í það með neinum hætti að henda út líflínu til fyrirtækjanna. Það er vont að horfa upp á fyrirtæki sem á síðustu árum hafa staðið undir 60% af fjölgun starfa á Íslandi, hafa staðið fyrir magnaðri nýsköpun sem er allri ýtt út af borðinu núna á sviði ferðaþjónustu á síðustu fimm til tíu árum, fyrirtæki sem hafa sett fjármagnið aftur inn í fyrirtækin og hafa ekki gert neitt miklu meira en að reyna að halda fyrirtækjunum gangandi og þróa þau áfram fyrir utan það hvað ferðaþjónustan hefur verið sjálfsprottin lífæð fyrir landsbyggðina. Það er svolítið verið að klippa á þessa lífæð fyrir landsbyggðina með því hvernig ríkisstjórnin horfir til ferðaþjónustu í þessum aðgerðum. Þess vegna segi ég að ég bind vonir við það að við náum að breyta einhverju í þessum pakka í nefndunum en ég bind líka vonir við það að ríkisstjórnin komi eigi síðar en í næstu viku með fleiri aðgerðir og fleiri skilaboð sem þurfa að vera skýrari fyrir atvinnulífið, m.a. ferðaþjónustuna. Norðmenn hafa til að mynda frá því í lok mars verið með aðgerðir í hverri einustu viku, bæði á sviði velferðarmála en ekki síður á sviði atvinnumála.

Ég ræði gjarnan og bendi á Þýskaland af því að við erum svo viðkvæm núna fyrir því að skuldsetja ríkissjóð. Við erum í ótrúlega góðri stöðu og við höfum sagt að á síðustu tíu árum hafi flokkar, hvort sem eru Samfylkingin, Vinstri grænir, Framsóknarflokkur eða Sjálfstæðisflokkur, komið að því að búa í haginn, og ekki síður Viðreisn, fyrir það að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það er sem betur fer af hinu góða og við erum komin með undir 30% skuldahlutfall. Af hverju erum við að gera það ef við notum það síðan ekki í svona fordæmalausri krísu og kreppu sem við stöndum frammi fyrir? Þjóðverjar eru með 40% skuldahlutfall, eða voru það, og ætla að fara upp í vel yfir 50%. Þeir eru að auka sinn beina stuðning sem hlutfall af vergri landsframleiðslu inn í fyrirtækin. Í ríkara mæli er verið að tala um að nota ekki bankana sjálfa sem milliliði í það að styðja við fyrirtækin. Ég held að við séum ekki að setja bankana sjálfa núna í einhverja ákjósanlega stöðu um það hvaða fyrirtækjum eigi að bjarga og hverjum ekki. Ég held að við þurfum að fara yfir margt.

Ég heyri að einhverjir Sjálfstæðismenn eru að ræða það hvað meira eigi að gera. Ég held að það væri best ef ráðherrar Sjálfstæðisflokksins byrjuðu á að tala við sitt eigið flokksfólk, til að mynda fulltrúa sinn fyrir vestan, á Ísafirði, sem rekur m.a. myndarlega ferðaþjónustu. Hann segir sjálfur að honum finnist blasa við að ekki standi til af hálfu ríkisstjórnarinnar að bjarga ferðaþjónustunni, að ríkisstjórnin telji henni ekki viðbjargandi. Þess vegna hefði verið hreinlegast fyrir ráðherra í ríkisstjórn að segja nákvæmlega hvað þeir ætlast fyrir með ferðaþjónustu.

Ég tek undir það sem hv. þm. Bergþór Ólason sagði áðan. Ég hvet ríkisstjórnina til að sýna okkur í þinginu sviðsmyndirnar sem er verið að vinna eftir varðandi ferðaþjónustuna og uppbyggingu atvinnulífsins í landinu. Við skulum heldur ekki gleyma því að byggingariðnaðurinn var löngu farinn í ákveðna niðursveiflu og byrjaður að búa sig undir niðursveifluna. Niðursveiflan var hafin löngu fyrir Covid. Byggingariðnaðurinn var að búa sig undir 20% niðursveiflu. Samhliða Covid eru áhrifin á ferðaþjónustuna líkleg til að hafa í för með sér samdrátt í byggingariðnaði allt að 40%. Það er mannaflsfrek atvinnugrein, 15.000–17.000 manns í byggingariðnaði. Samhliða þessu áfalli er algjör lokun ferðaþjónustunnar tímabundið en ferðaþjónustan mun rísa upp aftur. Byggingariðnaðurinn sem er líka mannaflsfrek grein er að draga saman þannig að þetta allt í hinni stóru mynd segir okkur að þær aðgerðir sem margar hverjar eru góðar, og við munum styðja, eru nauðsynlegar. Við munum hins vegar leggja til úrbætur því að þetta er ekki nóg. Ég hvet ríkisstjórnina til að koma hið fyrsta með fleiri aðgerðir og skýrari skilaboð.

Við í Viðreisn erum til.