150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram í dag þar sem komið hafa fram bæði jákvæð viðbrögð og eðlilegt aðhald með verklagi ríkisstjórnarinnar. Ég heyri vel að það er kallað eftir því að hlustað sé eftir góðum hugmyndum og við höfum viljað gera það en í þinginu er hinn augljósi vettvangur til að senda mál til umsagnar og hlýða í nefndum á hugmyndir til úrbóta eins og venja er til.

Ég þakka sömuleiðis fyrir að margt í þessum aðgerðapakka sem tengist fjáraukalagafrumvarpinu fellur í góðan jarðveg í þinginu. Hér er rætt um ýmis af þessum atriðum, atriði sem snúa að félagslega þættinum, sköpun starfa, fjölmiðlum og öðru og eru mjög verðug verkefni til að vera áfram í góðu sambandi undir vinnslu nefndarinnar. Þá á ég við að stjórnkerfið þarf að veita allar nauðsynlegar upplýsingar og skýra frekar útfærslur einstakra mála. Ég ítreka fullan vilja til þess og vil að það komi fram hérna undir lok umræðunnar að auðvitað vill maður að sem breiðust samstaða takist um mál. Þó að ekki hafi verið fallist á allar tillögur stjórnarandstöðunnar við fyrri afgreiðslu mála (Gripið fram í.) fannst mér að heilt yfir hefði vinnan í þinginu gengið vel. Þá er ég að vísa til þess að auðvitað voru fjölmargar tillögur og hugmyndir stjórnarandstöðunnar felldar inn í meirihlutaálitin sem komu úr nefndum þó að ekki væri full samstaða um allt saman. Svo er það sem út af stóð sem ekki var meiri hluti fyrir sem greidd voru atkvæði um í þingsal.

Ég ætla ekki að öðru leyti að lengja umræðuna, virðulegi forseti.