150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta stutta en mikilvæga innlegg. Það eru tvær spurningar sem ég vil bera upp við hann. Ég held að hann greini það alveg að okkur flestum, og ég heyri það líka á sumum stjórnarþingmönnum, finnst ekki alveg nóg að gert í þessum aðgerðum. Er ekki alveg ljóst að í þeirri vinnu sem bíður nefndarfólks innan þeirra nefnda þar sem málin koma til umfjöllunar verði ákveðið svigrúm fyrir nefndirnar til að taka málin áfram eins og var gert síðast og jafnvel gera enn meira til að bæta málin og breyta þannig að skrefin verði meira afgerandi? Við sjáum til að mynda samflokksmenn ráðherra í ferðaþjónustu vera með mikið ákall um að meira þurfi að gera, að þessar aðgerðir dugi til að mynda ekki innan ferðaþjónustunnar þó að margt gott sé gert.

Ég vil draga fram að margt fínt er í þessum pakka en mín fyrri spurning er hvort það sé ekki öruggt að þingið hafi nokkuð mikið svigrúm á þessum fordæmalausu tímum til að koma með þær breytingar sem eru til þess að byggja upp og auka viðspyrnuna í íslensku atvinnulífi og halda betur utan um heimilin. Ég hef hér hlustað á ýmsar ræður úr stjórn og stjórnarandstöðu og ég geri mér grein fyrir því að það eru ólíkir flokkar í ríkisstjórn, en síðari spurningin er hvort við hæstv. ráðherra getum ekki verið sammála um að lykilviðspyrna fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf sé í gegnum einkageirann, að fjölga störfum á sviði atvinnulífsins, á sviði einkafyrirtækja og úti í atvinnulífinu, þannig að þegar við þurfum á fyrirtækjunum okkar að halda sé ekki búið að setja á þau til að mynda það mikla skuldaklafa að þau geti ekki veitt viðspyrnu og risið með okkur. Er ekki hæstv. ráðherra sammála mér um að við þurfum að ýta undir og verja störfin úti í fyrirtækjunum og úti í atvinnulífinu?