150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[17:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er einmitt alveg sammála því að verkefnið er flókið og það þarf að stilla og við erum svolítið að vinna okkur áfram. Þess vegna segi ég að ég bjóst í þessari aðgerð núna við breytingu á hlutastarfaleiðinni af því að það er búið að liggja fyrir í meira en tvær vikur, ég myndi segja nokkurn veginn frá síðasta aðgerðapakka, að þessa leið, hlutastarfaleiðina, þurfi að útfæra betur. Ég bjóst við að það yrði gert en ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir breytingum, helst sem fyrst, helst í byrjun næstu viku, og helst fyrir næstu mánaðamót þegar uppgjör fyrirtækja liggja fyrir varðandi launastrúktúr og fleira.

Ég vil spyrja ráðherra hvort hann fylgist með — ég veit að hann gerir það alla jafna — þróuninni úti í Evrópu sem við sjáum vera þá að þjóðirnar fara í ríkara mæli í beinan stuðning. Við sjáum til að mynda Þjóðverja fara í það að auka skuldahlutfall sitt úr 40% í vel yfir 50% og yfir í það að fara í beinan stuðning við fyrirtækin. Sér hæstv. ráðherra það gerast á næstunni? Af þeim 60 milljörðum sem voru kynntir í gær eru um 70% í lán og frestun á skattgreiðslum. Þar eru margar fínar leiðir en ég ítreka að við megum ekki skuldsetja atvinnulífið þannig að viðspyrna verði ekki nægilega mikil þegar við þurfum á því að halda.

Það er rétt að ekki er alltaf hægt að bjarga öllum. Það er enginn að tala um það. Ég hvet hæstv. ráðherra til að tala við flokksfólk sitt um ferðaþjónustuna, fólk í þeim röðum hefur a.m.k. haft samband við mig í dag. Það sem skiptir máli er að fólk fái tilfinningu fyrir því og hafi fengið tilfinningu fyrir því að það hafi staðið frammi fyrir tækifærum, að það sé ekki bara þráðbeint verið að setja fyrirtæki þessa fólks á brunaútsölu af því að það fékk ekki tímabundið tækifæri til að eygja möguleika á því að lifa þessa fordæmalausu krísu af. (Forseti hringir.) Það er sú ábending sem ég hvet hæstv. ráðherra til að taka með sér.