150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[21:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég fagna þeirri afstöðu sem hv. þingmaður sýnir málinu, ánægjulegt að við deilum skoðunum um að við þurfum og erum með þessum breytingum í frumvarpinu að taka ný skref í þá átt að ýta undir sjálfbærni okkar varðandi framleiðslu þessara þátta sem okkur eru svo mikilvægir. Framlagið, 500 millj. kr., er í mínum huga mikill vöxtur við það sem fyrir er. Mér finnst 150 millj. kr. fjárveiting inn í Framleiðnisjóð landbúnaðarins lág. Hún er lág miðað við mikilvægi þeirrar framleiðslu sem þar er undir. Þarna sjáum við töluverða viðbót koma inn. Við höfum séð í AVS-sjóðnum, sem núna er með fjárveitingar einhvers staðar á bilinu 250 milljónir, að þær fjárveitingar nýtast vegna þess að mótframlagið kemur svo sterkt inn frá sjávarútvegsfyrirtækjunum eða tæknifyrirtækjum. Við höfum gert alveg gríðarlega góða hluti allt frá árinu 2003, þegar þessi sjóður var stofnaður, í vexti, tækniþróun, nýjungum í gegnum AVS-sjóðinn. Ég vænti þess að með þessum nýja sjóði getum við unnið áfram og enn styrkar vegna þess að á móti þeim 500 milljónum sem ríkisstjórnin er að bæta inn koma fjárveitingar til verkefna. Ég þekki aðeins til þeirra hugmynda sem hafa verið uppi um miklar viðbætur á sviði þessara mála. Nýjustu hugmyndir í þeim efnum eru í Ölfusinu og þar er stórhuga fólk á ferð. Ég þekki sömuleiðis hugmyndir fyrir norðan, á háhitasvæðunum þar og orkusvæðunum. Ég tel að sjóður sem þessi geti tekið undir þær hugmyndir og áform sem þarna er á ferðinni og (Forseti hringir.) ýtt undir það að við verðum sterkari matvælaframleiðendur eftir einhvern tíma en við erum í dag.