150. löggjafarþing — 93. fundur,  28. apr. 2020.

Matvælasjóður.

728. mál
[15:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég held að þetta frumvarp eigi eftir að verða farsælt, ég held að það muni veita viðspyrnu í matvælaframleiðslu í landinu. Hér hefur verið breytt orðalagi, það segir „við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum“, í staðinn fyrir að segja „úr landbúnaði og sjávarútvegi“. Þetta er ein af nokkrum breytingum meiri hluta nefndarinnar, sem mér sýnast vera farsælar, málið lagaðist í meðförum hennar. Það eru fleiri sem geta nú komið að borðinu, það er ekki geðþóttavald ráðherra sem ræður því hvort tillögur þessarar stjórnar um úthlutanir fari áfram. Núna á að taka það út og fagráð sjö aðila, víðtæk aðkoma úr greininni, leggur inn tillögur eða umsögn til stjórnarinnar sem ákveður síðan úthlutunina. Þetta er sett í faglegri búning sem býður upp á minni pólitískan geðþótta. Það er gott.

Það er eitt sem ég hef áhyggjur af, þó að nákvæmlega þetta komi til móts við þær áhyggjur að einhverju leyti. Þegar þetta er sett í einn sjóð erum við með sjávarútveginn og landbúnaðinn saman. Landbúnaðurinn er oft einhvern veginn léttvægari og það er hugsað meira um sjávarútveginn, eða manni hefur fundist það. Ég vil spyrja hvort formaður nefndarinnar hafi áhyggjur af því. Og innan landbúnaðarins er grænmetisframleiðslan, er mér alltaf sagt, einhvern veginn á botninum, hún fær ekki sérstaklega mikinn vegsauka innan kerfisins. Mig langar að spyrja um það atriði og líka varðandi það hversu fljótt fjármagnið mun skila sér í vinnu, en ég spyr um það í næsta andsvari.