150. löggjafarþing — 94. fundur,  28. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[18:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er mér fagnaðarefni að fá tækifæri til að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna og spannar nokkuð breitt svið í löggjöfinni. Sameiginlegur þráður í frumvarpinu eru breytingar á ýmsum lögum sem varða eignarráð og nýtingu fasteigna. Nái frumvarpið fram að ganga mun skapast yfirsýn yfir eignarhald á landi á Íslandi og stjórnvöld öðlast stýritæki til að stuðla að því að landnýting verði í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.

Forsaga þessa máls er alllöng og hafa málefni tengd jörðum og eignarhaldi á landi komið til umræðu hér á Alþingi og í samfélaginu alloft síðustu misseri. Landeignir eru takmörkuð gæði á sama hátt og mikilsverðar náttúruauðlindir; við getum rætt um fiskstofnana, jarðhita, málma og svo mætti lengi telja. Land getur því ekki flokkast eins og hver önnur vara sem gengur kaupum og sölum á samkeppnismarkaði. Ef engar reglur eru um eignarhald á landi og auðlindum því tengdu getur landið auðveldlega orðið spákaupmönnum að bráð sem aftur getur teflt hagsmunum bæði samfélags og náttúru í tvísýnu.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur sem hér sitjum á Alþingi nú að meðal fyrstu lagabálka sem samþykktir voru eftir að Ísland varð fullvalda ríki voru lög um nýtingu lands og eignarhald á landi. Í upphafi síðustu aldar, 20. aldar, vísaði Winston Churchill til þess að einokun á landi væri móðir allrar einokunar. Hún væri eilíf, leiddi af sér óverðskuldaðan gróða sem væri beinlínis skaðlegur almenningi, t.d. í formi tolla og hárrar leigu. Land er ekki lúxusvara heldur er það forsenda mannlegs lífs. Þess vegna er það óheppilegt að jarðamál hafi í mörgum meginatriðum sætt ákveðinni vanrækslu af hálfu stjórnvalda og af hálfu stjórnmálanna um langa hríð. Að einhverju leyti má rekja þá stöðu til alþjóðlegrar þróunar. Pólitísk umræða um eignarhald á landi var framan af þessari öld af skornum skammti. Land var álitið fjárfestingartækifæri og andstaða við slíka hugsun útmáluð sem gamaldags hugsun og hindrandi fyrir frjáls viðskipti. Um slíka orðræða eru fjölmörg dæmi, bæði alþjóðlega og hérlendis. En vilji menn líta á varðstöðu um land, auðlindir og náttúru Íslands sem gamaldags skal ég með glöðu geði kenna mig við það. Um þetta munu hins vegar framtíðarkynslóðir spyrja og grundvallarforsendan er sú að land er takmörkuð auðlind.

Veikleikar í regluverki hér á landi gætu líka að einhverju leyti verið til komnir vegna þess að málaflokkurinn heyrir undir mörg ráðuneyti og því hefur skort á heildstæða yfirsýn. Það er af þeim sökum sem ég flyt þetta mál hér en það kom til meðferðar í forsætisráðuneytinu, sem í krafti samhæfingarhlutverks síns safnaði sjónarmiðum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og atvinnuvegaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og í kjölfar þeirrar vinnu er frumvarpið lagt fram. Það tekur til breytinga á fjórum lagabálkum sem geyma ákvæði um eignarráð og nýtingu fasteigna. Það var samið á vegum forsætisráðuneytisins í samvinnu við ráðuneytin sem ég taldi upp sem og Þjóðskrá Íslands. Til ráðgjafar við samningu frumvarpsins voru Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, framkvæmdastjóri Lagastofnunar Háskóla Íslands. Umfjöllun í allítarlegri greinargerð, sem ég vona að nýtist hv. þingmönnum við þessa vinnu, byggir á viðamikilli greiningarvinnu þeirra sem leiddi m.a. í ljós að ekki liggja fyrir nægilega greinargóðar upplýsingar um eigendur, eignarhald tengdra aðila, kaupverð, stærðir og nýtingu og flokkun lands. Þá var talinn skortur á heildstæðri og útfærðri stefnu um nýtingu lands og eignarhald í því samhengi. Um þetta hefur verið fjallað í fyrri skýrslum stjórnvalda og vísa ég þá sérstaklega til skýrslu starfshóps um eignarhald á bújörðum sem kom út í ágúst 2018 og skýrslu nefndar um endurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, sem kom út í maí 2014.

Ég mun nú fara nánar yfir tillögur frumvarpsins. Í fyrsta lagi eru undanþáguheimildir vegna skilyrða fyrir fasteignakaupum aðila sem búsettir eru í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðis skýrðar nánar, en ákvæði núgildandi laga um það efni eru almenn og óljós. Meginreglan er að íslenskur ríkisborgararéttur eða lögheimili hér á landi er skilyrði til að geta öðlast eignarréttindi yfir fasteign. Í samræmi við EES-samninginn njóta EES-borgarar sambærilegra réttinda og nær þessi löggjöf eða þessi hluti frumvarpsins því eingöngu til aðila sem búsettir eru í ríkjum utan EES. Einstaklingar utan EES geta sótt um leyfi til dómsmálaráðherra til að eignast fasteign á Íslandi. Með breytingum sem hér eru lagðar til er tekið mið af viðmiðunarreglu sem dómsmálaráðuneytið hefur unnið samkvæmt frá árið 2016 og þannig sett viss skilyrði fyrir undanþágu. Meðal annars er gert ráð fyrir því að stærð fasteignar skuli ekki fara fram úr 3,5 hekturum, nema þörf sé á stærri eign vegna atvinnustarfsemi en þá er hámarkið 25 hektarar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að kaupverð eigna skuli koma fram í þinglýstu afsali en þess hefur gætt í framkvæmd að afsöl séu afhent til þinglýsingar án þess að í þeim komi fram upplýsingar um kaupverð eignar. Kaupverð er m.a. forsenda ákvörðunar fasteignamats og mikilvægt að það komi fram í þinglýstum skjölum, fyrir utan það að sjálfsögðu að það eykur gagnsæi um jarða- og landakaup hér á landi.

Í þriðja lagi er lagt til að landeignaskrá á vegum Þjóðskrár Íslands verði vettvangur fyrir samræmda opinbera skráningu á upplýsingum um land. Þjóðskrá hefur á undanförnum árum unnið að uppbyggingu slíkrar skrár en á þessu stigi hafa um 25% af flatarmáli Íslands verið hnitsett og skráð af hálfu stofnunarinnar. Hins vegar skortir ákvæði um landeignaskrá í lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og hefur komið fram af hálfu Þjóðskrár að það hamli frekari uppbyggingu skrárinnar.

Í fjórða lagi er sjónarmiðum um náttúruvernd, byggðaþróun og sjálfbærni gert hærra undir höfði í markmiðsákvæði jarðalaga, sett er inn skilyrði um samþykki fyrir aðilaskiptum að landi í skilgreindum tilfellum þar sem aðili á tiltekna stærð á landi fyrir og mun ég víkja aðeins nánar að því hér á eftir. Þá er gert ráð fyrir aukinni upplýsingaskyldu tiltekinna lögaðila um eignarhald þeirra og loks eru lögð til skýrari skilyrði fyrir afskráningu lögbýla og lausn lands úr landbúnaðarnotum.

Drög að frumvarpinu voru til umsagnar í samráðsgátt Stjórnarráðsins á tímabilinu 13.–27. febrúar sl. og bárust 33 umsagnir. Margir urðu til að fagna framkomnu frumvarpi en síðan komu fram sjónarmið um að frumvarpið gengi allt of skammt eða að of langt væri gengið með ákvæðum samþykkisskyldu, jafnvel að hér væri farið gegn stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Og áður en lengra er haldið vil ég taka af allan vafa um það að það er mitt mat að frumvarpið sé í fullu samræmi við stjórnarskrá Íslands, enda inniheldur hún engin ákvæði um það að einn einstaklingur megi eignast eins mikið land og hann vill á Íslandi. Með friðhelgi eignarréttarins sem undirstrikuð er í stjórnarskrá Íslands er ekki átt við að allir hafi ótakmarkaðan rétt til að eignast tilteknar eignir heldur er fyrst og fremst verið að undirstrika eignarréttarákvæði án þess að ganga um of í raun og veru á rétt annarra. Í þessu samhengi hefur einnig verið sett fram krafa um blátt bann við jarðasöfnun. Það má vel taka undir að erfitt er að sjá hvers vegna einn einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar þurfi að eiga mörg þúsund hektara af landi með öllum þeim réttindum sem því tilheyra. Í slíkum tilfellum þarf líka muna að eignarhald getur breyst. Jafnvel þó að nýting geti verið í samræmi við hagsmuni samfélags og náttúru getur það breyst á einni nóttu ef markaðslögmálin ein ráða. Þess vegna er mikilvægt að ráðherra mun geta bundið samþykki sitt við fyrirhuguð not.

Enn sem komið er skortir á fullnægjandi opinberar upplýsingar um eignarhald og nýtingu lands en eitt af markmiðum þessa frumvarps er að öðlast slíkar upplýsingar og jafnframt að þær verði aðgengilegar almenningi gjaldfrjálst upp að ákveðnu marki. Samhliða er stjórnvöldum veitt stýritæki til að grípa inn í ef um óhóflega samþjöppun er að ræða.

Ég vil segja það hér að eftir að við fórum yfir allar þær umsagnir sem bárust inn í samráðsgátt Stjórnarráðsins þá færðust ákvæði frumvarpsins fremur í ívilnandi átt fyrir þá sem kaupa og selja fasteignir. Hér er nú miðað við að samþykkisskyldan virkist ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteignir sem eru samanlagt 1.500 hektarar að stærð og samþykki skuli að jafnaði ekki veitt sé um 10.000 hektara að ræða eða meira. Þá er skylt að afla samþykkis ef viðtakandi réttar á fimm eða fleiri lögbýli sem eru samanlagt 50 hektarar eða meira.

Þá er eðlilegt að hv. þingmenn spyrji: Hvernig eru þessi stærðarmörk fundin? Þá þarf auðvitað að líta til þess að jarðir eru afar mismunandi að stærð. Til dæmis má segja að miðgildi stærðar jarða á Suðurlandi er á bilinu 200–300 hektarar en á Vestfjörðum er það yfir 800 hekturum. Einnig er vert að vekja athygli á því að 10.000 hektarar samsvara 0,4% af láglendi Íslands. Hér erum við því ekki að tala um að ríkisvaldið sé að skipta sér af jarðarskikum hér og þar um landið. Ef 0,4% þykir of lágt viðmið, hvenær er þá nóg nóg? Þegar mikið var rætt um kaup Bandaríkjamanna á Grænlandi fékk ég þá spurningu á opnum fundi hvort möguleiki væri fyrir Bandaríkin að kaupa Ísland og svar mitt var það, kannski heldur leiðinlegt, að þjóðlendurnar eru ekki til sölu og þær eru auðvitað u.þ.b. 40% af landinu, en um önnur landakaup og landasölu gilda í raun og veru engin þau takmörk að hægt væri að koma í veg fyrir það. Þannig að við hljótum að spyrja okkur hér og taka afstöðu til þess sem ég tel að það hafi lengi verið mikil nauðsyn á að Alþingi Íslendinga geri: Hvenær er nóg nóg? Hversu mikill hluti af Íslandi er eðlilegt að safnist á eina hendi? Eru það 5%? Eru það 50% eða er það bara landið allt?

Herra forseti. Mat forsætisráðuneytisins er að heildarendurskoðun laga og reglna í málaflokknum sé langhlaup en ekki spretthlaup og í þessu frumvarpi er eingöngu stigið fyrsta skrefið sem um leið er afar þýðingarmikið, því að yfirsýn yfir eignarhald á landi og aukið gegnsæi um eignarhald lands er nauðsynleg svo að efla megi frekar stýritæki stjórnvalda til að hafa stjórn á því hversu mikið land má safnast á örfáar hendur. Ég tel hins vegar að halda þurfi áfram þessari vinnu, skoða löggjöf sem varðar tengsl eignarréttar og auðlinda, kanna möguleika á að setja skilyrði um búsetu eða nýtingu lands, svo sem fordæmi eru fyrir annars staðar á Norðurlöndum, og taka á vandkvæðum sem því fylgja þegar land er í sameign margra eigenda. Margir hafa orðið til að vekja athygli mína á því að víða um land eru jarðir þar sem fjöldi eigenda nemur jafnvel nokkrum tugum sem gerir allar ákvarðanir um ráðstöfun slíks lands flóknar í framkvæmd.

Nú er komið alllangt fram á vorið en ég vona að hv. þingmenn, sem hafa verið mjög duglegir að spyrja eftir þessu máli í vetur, hafi tíma til þess að fjalla ítarlega um það á Alþingi og við berum gæfu til þess að ná samstöðu um að styrkja löggjöf og stefnu um eignarhald á fasteignum. Ég átta mig á því að það mun alltaf verða erfitt að ná lendingu um nákvæmlega hvar við eigum að draga mörkin. Hér gerum við atlögu að því og byggjum það á þeirri ítarlegu greiningarvinnu sem ég vísaði til áðan og því samráði sem fór fram í kjölfarið. Málið er hins vegar ótvírætt gríðarlega mikilvægt, ekki bara gagnvart íslensku samfélagi samtímans heldur ekki síst gagnvart komandi kynslóðum. Land er hluti af fullveldisrétti okkar sem þjóðar og það skiptir máli að Alþingi taki skýra afstöðu til þess hvaða stefnu við ætlum að reka gagnvart bæði eignarráðum og yfirráðum yfir landi, notkun á landi og hvernig við viljum sjá þau mál þróast á komandi árum.

Að svo búnu legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.