150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

712. mál
[13:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt þessa dagana og undanfarnar vikur sem ástandið hefur verið einna verst í leysingunum þannig að ástandið núna bjargar frá töluverðum skemmdum. Það eru þó nokkrir staðir sem hafa orðið fyrir átroðningi á undanförnum árum sem fá smápásu núna, svolítið andrými. Það er gott og blessað þrátt fyrir ástæðurnar fyrir því að þeir fá andrýmið.

Þarna á milli er ákveðin togstreita, milli landsáætlunar og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, af því að nokkrir staðir lenda inn á milli, kannski svæði í einkaeigu einstaklinga sem vilja að svæðið sé nýtt sem sú náttúruperla sem það er en geta ekki eða vilja ekki viðhalda því álagi sem verður vegna þess og vilja kannski koma því verkefni frá sér á einhvern hátt. Þá lendir það einhvern veginn í glufu þarna á milli. Það kaldranalega er að enginn grípur skaðann sem landið verður fyrir nema það sjálft. Náttúruperlan líður fyrir það á meðan allir eru einhvern veginn með hendur í vösum og benda hver á annan, að hinn beri ábyrgð, og skaðinn verður á meðan. Á þeim nótum er ég að reyna að benda á heildarsamhengið, bæði flæði á milli svæðanna og líka sem sagt að við missum ekki þær náttúruperlur sem er kannski ágreiningur um í rifrildi um hvort eigi að fara í Framkvæmdasjóð ferðamanna eða landsáætlun, heldur að það verði gripið einhvers staðar og komið í veg fyrir frekari skemmdir eins og við erum því miður að upplifa.