150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

720. mál
[18:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um þetta frábæra frumvarp um hollustuhætti, mengunarvarnir, plastvörur. Eins og með frumvarpið hér á undan er þetta ESB-frumvarp. Það fer ekki á milli mála þegar maður skoðar einstakar greinar frumvarpsins alveg frá 1.–12. gr. þá er ESB í öllum greinum, og þarf ekki að vera slæmt mál en samt svolítið skrýtið að við skulum ekki geta gert betur sjálf.

En í þessu frumvarpi er verið að taka á stórum málum eins og veiðarfæraúrgangi, sem er hið besta mál eins og hefur komið fram hér. Við höfum séð að farið hefur verið í hreinsanir á svæðum, t.d. á Ströndum, þar hefur verið gígantískt magn af plasti. Því miður erum við, eins og komið hefur fram, eiginlega að drekkja okkur í plasti. Við erum með heilu plasteyjarnar og maður hefur eiginlega séð heilu fljótin af endalausu plasti, ekkert annað en plast, sem rennur til sjávar. Maður hefur séð ótrúlegt hugmyndaauðgi hjá uppfinningamönnum til að reyna að stemma stigu við plasti og ná því upp úr árfarvegi og sjónum og hreinsa það úr. Sem betur fer erum við byrjuð á því. En ég held að við þurfum að gera mun betur. Ég vona bara að þetta sé fyrsta skrefið vegna þess að við mengum gífurlega. Og hættulegast af þessu öllu er nanóplastagnir sem sjást ekki og virðist vera gífurlegt magn af þeim í umferð.

Það er frábært að taka skuli á einnota umbúðum. Við vitum það í þinginu að eftir að Covid-faraldurinn skall á fengum við matinn í frauðplastbökkum, maður fær eiginlega fyrir hjartað. Það er gífurleg plastnotkun sem fylgir bæði einnota frauðplastbökkum, glösum, hnífapörum og fleiru. Þetta er ótrúlega mikið magn en sem betur fer erum við þó alla vega að reyna að sporna við þessu. Ég geri mér líka grein fyrir því, eins og við vorum að ræða um áðan, að við erum með plast í ótrúlega mörgu og sérstaklega undir skyndibitarétti, einnota plast undir skyndibitarétti og frysta rétti. Eitt af því sem við vitum að er gígantísk plastmengun af eru plastbakkar sem notaðir eru undir mat í örbylgjuofnum. Þetta er engu að síður eitthvað sem þarf að finna nýjar lausnir á vegna þess og eins og ég segi, þetta eru ódýrustu plastbakkarnir, ódýrasta hráefnið sem kemur yfirleitt vegna gífurlegrar fjöldaframleiðslu á matvælum og því miður er það, held ég, langt frá því að vera talið það hollasta sem menn geta fengið. Það hollasta eru auðvitað ferskar matvörur.

En ég styð frumvarpið heils hugar og tel að þetta sé alveg frábært fyrsta skref, en ég hef líka alltaf áhyggjur af því að þegar við förum af stað með svona verði kostnaðurinn óheyrilegur og of mikill fyrir þá sem síst skyldi. Ég ætla samt að vona heitt og innilega að svo verði ekki.