150. löggjafarþing — 96. fundur,  4. maí 2020.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

734. mál
[19:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það er eitt og annað sem kemur upp í hugann þegar maður rennir yfir frumvarpið og eflaust munu fleiri spurningar vakna þegar nokkuð líður á þessa umræðu og meðferð málsins í þinginu. Mig langar hins vegar að spyrja ráðherra hvort það hafi ekki verið tilefni til, fyrst farið var í þessar breytingar, að taka inn í millilandaflugið líka. Við vitum að það skiptir miklu máli á Egilsstöðum og Akureyri. Þeir sem skipuleggja ferðir eða vilja selja ferðir til og frá Íslandi frá þessum flugvöllum hafa bent á að eitt af því sem er fráhrindandi við það er að verð á flugvélabensíni er hærra þar en á suðvesturhorninu. Sá ráðherra ekki þann kost að taka þetta inn í núna til að höggva á þann hnút, þetta vandamál? Það myndi augljóslega hvetja til þess enn frekar að flogið verði beint til og frá þessum stöðum, sem skiptir svo miklu máli úti á landi. Ég sé að vísað er til einhverrar annarrar vinnu í þessu frumvarpi, en það hefði verið skynsamlegra að nýta ferðina, fyrst við erum að koma með þetta mál hingað inn og breyta þessum lögum öllum. Þetta er ein spurningin, hvers vegna það hafi ekki verið gert.

Síðan langar mig að spyrja ráðherra hvort hann geti sagt við okkur þingmenn og landsmenn að þessi breyting muni ekki leiða til hækkunar á olíuverði úti á landi eða jafnvel, eins og einhverjir hafa áhyggjur af, að sala eða afgreiðsla á sumum stöðum legðist hreinlega af. Er klárt að þessi breyting þýði ekki slíkt?