150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:21]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Frumvarp þetta, sem er eitt af áherslumálum mínum, hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu sl. tvö ár og snýr að því að auka nauðsynlegt fjármagn til vegaframkvæmda. Álag á vegi landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Á meðan við bíðum eftir að ferðamennirnir komi aftur er því skynsamlegt að nýta vel tímann til undirbúnings framkvæmda og á það hafa ýmsir bent á síðustu dögum og vikum. Markmið frumvarpsins er sem sagt að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum. Þannig er áætlað að samvinnuverkefni sem hér eru kynnt um vegaframkvæmdir geti skapað allt að 4.000 ársverk sem skiptist á milli hönnunar í hátæknistörfum og verktaka á framkvæmdatíma fyrir utan þau störf sem leiðir af slíkri starfsemi. Því er þetta frumvarp ákaflega mikilvægt verkfæri í því skyni að efla innlenda starfsemi á næstu mánuðum og árum, efla efnahaginn og fjölga störfum.

Núna þegar fyrirsjáanlegur samdráttur er í kjölfar Covid-19 faraldursins hefur ríkisstjórnin kynnt fjárfestingarátak sem felur í sér verulega hækkun á fjárfestingarstigi ríkissjóðs á næstu árum. Með þessu frumvarpi er þar af leiðandi líka komið kærkomið fjárfestingartækifæri, til að mynda fyrir lífeyrissjóðina, fjárfesting til langs tíma, 15–30 ára.

Frumvarpið er mikilvægur þáttur í að fá aukið fjármagn inn í fjárfestingarátakið og búa til öfluga samvinnu á milli einkaaðila og ríkisins til framtíðar. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að efla og fjárfesta í innviðum samfélagsins með sérstöku tímabundnu 18 milljarða króna fjárfestingarátaki, þar af er vægi samgöngumannvirkja um 36%. Það er mikilvægt að bregðast hratt við en gera jafnframt langtímaáætlanir eins og kostur er í þeirri erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við, halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði vel í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn og við förum að sjá ferðamenn eins og við sáum áður. Notum því tímann vel og höldum áfram.

Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á innviðauppbyggingu á öllum sínum starfsferli, ekki síst samgöngumálin. Því til upprifjunar hef ég tvisvar sinnum lagt fram samgönguáætlun síðustu tvö árin. Í þeirri sem þingið fjallar um núna er umtalsverð aukning fjármuna. Fjármagn til vegaframkvæmda mun aukast um 4 milljarða ár hvert næstu fimm árin. Framkvæmdum upp á 214 milljarða verður flýtt innan 15 ára tímabilsins. Fjármagn til viðhalds og þjónustu mun aukast um 1 milljarð á ári næstu 15 árin. Þá er samkomulag um beina fjármögnun ríkisins í samgöngusáttmála við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem er á dagskrá síðar í dag upp á eina 45 milljarða, verkefni alls upp á 120 milljarða. Í samgönguáætlun sem er fyrir þinginu er einnig að finna fyrstu flugstefnu Íslands og fyrstu heildarstefnu um almenningssamgöngur milli byggða. Mikil áhersla er lögð á samgöngumálin.

Fyrir utan samgönguáætlun er síðan flýtifjármögnun og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem er hér til umfjöllunar. Með flýtiframkvæmdum sem frumvarpinu er ætlað að flýta mun því losna um framkvæmdafé sem unnt verður að ráðstafa til verkefna sem annars hefðu þurft að bíða lengur en áætlað var.

Almannahagsmunir kalla á að brugðist sé við uppsafnaðri þörf með aðgerðum í þágu öryggis og greiðfærni. Umfang fjárfestinga sem áætlað er að leggja þurfi í til þess að koma mikilvægum verkefnum til framkvæmda er slíkt að ljóst er að þeim verður ekki flýtt nema til komi aðrar fjármögnunarleiðir.

Forsagan er sú að í júlí 2018 óskaði ég eftir tillögum frá starfshópi að nýjum fjármögnunarleiðum sem gætu hjálpað til við að flýta uppbyggingu brýnna samgöngumannvirkja í þágu umferðaröryggis. Skilaði starfshópurinn tillögum í apríl 2019 þar sem kynntir voru valkostir við fjármögnun og aðferðafræði við forgangsröðun verkefna. Ýmsum leiðum til fjármögnunar með sérstakri gjaldtöku var varpað fram og kostir og gallar metnir út frá aðstæðum hér á landi. Enn fremur voru skoðaðir ýmsir kostir við skipulag og rekstrarfyrirkomulag flýtifjármögnunar, m.a. með hliðsjón af samspili við fjármál ríkisins.

Helstu forsendur fyrir ákvörðun um samvinnuverkefni í vegagerð er að vegfarendur eigi val um aðra leið þar sem ekki þarf að greiða notendagjald. Í samvinnuverkefnunum sem hér er fjallað um er lykilatriði að stytting verði á vegalengd og að þannig sé ábati vegfaranda verulegur. Gert er ráð fyrir að notendagjöld standi að mestu undir kostnaði og rekstri. Þessu til viðbótar má færa rök fyrir því að samvinnuverkefni hafi hámarkshagnað í för með sér þegar litið er til ábata samfélags af samgöngubót þar sem val á framkvæmdum er oftar en ekki háð eftirspurn eftir þjónustunni. Þannig fær samfélagið meira fyrir peningana þegar samvinnuverkefni eiga í hlut.

Þar að auki kom fram að með þessari aðferð væru oft góðar forsendur fyrir sterkum hvata til nýsköpunar sem geta mögulega leitt til lækkunar á framkvæmdakostnaði og vandaðra vinnubragða í hönnun, framkvæmdum og rekstri.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að leitað hefur verið til einkafyrirtækja um að koma í auknum mæli að uppbyggingu samgöngukerfa. Í fyrsta lagi geta samvinnuverkefni verið leið til að viðhalda fjárfestingu í erfiðu árferði. Í öðru lagi eru samvinnuverkefni leið til að virkja kosti einkaframtaks í samgöngum, nánar tiltekið nýsköpun og sveigjanleika í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Í þriðja lagi geta samvinnuverkefni stuðlað að því að skattgreiðendur fái meira fyrir peningana sína, þjónustan verði betri og áhættuskipting milli hins opinbera og einkaaðila hagfelld.

Að lokum er rétt að nefna að reynsla erlendis frá hefur sýnt að einkaaðilar ná að jafnaði að ljúka við framkvæmdir á styttri tíma en opinberir aðilar, ekki síst þar sem opinberri fjármögnun er oft dreift á mun lengri tíma en þörf er á framkvæmdarinnar vegna. Til að opna á þann möguleika að stærri vegaframkvæmdir séu unnar sem samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila er nauðsynlegt að kveða í lögum á um heimildir fyrir Vegagerðina til að fela utanaðkomandi aðilum með samningi fjármögnun tiltekinna framkvæmda, hönnun þeirra, nauðsynlegan undirbúning og uppbyggingu mannvirkjanna, viðhald þeirra og rekstur.

Virðulegur forseti. Ég ætla að hafa nokkur orð um markmið frumvarpsins. Það er lagt fram með það markmið að auka nauðsynlegt fjármagn til vegaframkvæmda. Í frumvarpinu felst að lagðar eru til heimildir til handa Vegagerðinni, að undangengnu útboði, til að ganga til samninga við einkaaðila um vegaframkvæmdir í formi samvinnuverkefnis. Það þýðir að Vegagerðin getur falið einkaaðila að sjá um fjármögnun, hönnun, nauðsynlegan undirbúning og uppbyggingu framkvæmdanna ásamt viðhaldi og rekstri í tiltekinn tíma.

Samvinnuverkefni felur í sér að greiðslur fyrir verkið geta falist í notendagjöldum, skuggagjöldum eða föstum greiðslum ríkissjóðs til verksala. Ekki er óalgengt að einkaaðili taki nokkra fjárhagslega áhættu, hvort sem er af fjármögnuninni sjálfri og/eða af því að umferðarþungi sé ekki undir áætlun. Það eru áhöld um hvort umferðarspár haldi.

Oft er horft til þess að aðilar á markaði búi yfir þekkingu og reynslu sem nýtist við að vinna með áhættu í framkvæmdum. Engu að síður má gera ráð fyrir því að tilboð verktakans um að ganga til samstarfs við ríkið um verkefni hækki í takt við þá áhættu sem hann tekur í samstarfinu en mismunandi mikið eftir aðilum og verkefnum. Í lok samningstíma tekur ríkið við rekstri mannvirkjanna endurgjaldslaust. Við þekkjum svona verkefni. Þarna er verið að lýsa Hvalfjarðargangamódelinu.

Þau verkefni sem lagt er til að verði unnin sem samvinnuverkefni í þessu frumvarpi eru eftirfarandi: Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót og ný brú þar, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall og síðan Sundabraut. Í öllum tilvikum hafa vegfarendur val um aðra leið og allar framkvæmdirnar hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.

Í frumvarpinu eru upplýsingar um hvert og eitt verkefni ásamt upplýsingum sem hafa áhrif á útreikninga notendagjalds, svo sem kostnaðaráætlun þar sem hún liggur fyrir og upplýsingar um vegstyttingu.

Megintilgangur frumvarpsins er að veita heimild til að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða að öllu leyti með gjaldtöku af umferð um vegaframkvæmdirnar. Gjaldtakan skal þó ekki hefjast fyrr en framkvæmdum lýkur og aldrei standa lengur en í 30 ár.

Notendagjöldin geta staðið að heild eða að hluta undir byggingar- eða framkvæmdakostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun eða eðlilegum afrakstri af fjárfestingu vega. Í frumvarpinu er veitt heimild til að semja um að eignarhald mannvirkjanna geti á samningstímanum verið hjá einkaaðilanum en í lok samningstímans skulu mannvirkin teljast eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.

Í einhverjum tilvikum getur verið eðlilegt að gera ráð fyrir því að félag í eigu ríkisins annist gjaldtöku af mannvirkjum og annist greiðslur til einkaaðila samkvæmt nánari samningi þar um og er því lagt til að Vegagerðinni verði veitt heimild til að stofna sérstakt félag eða fela sérstöku félagi í eigu ríkisins að annast einstaka þætti samvinnuverkefnis. Þingið og þingnefndir munu fara vel yfir þetta og nefndin ætti jafnframt að skoða hvort einnig ætti að heimila Vegagerðinni sérstaklega að geta tekið lán í undantekningartilvikum ef fjármagn frá einkaaðilum reynist of dýrt. Þetta er ekki hluti af frumvarpinu, ég er að bæta þessu við vegna þeirrar umræðu sem við höfum átt síðustu vikur og mánuði.

Innheimta notendagjaldanna er nánar útfærð í frumvarpinu og er skýrt kveðið á um að gjaldskrá skuli birt, hver beri ábyrgð á greiðslu notendagjaldanna og innheimtuúrræði. Lagt er til að heimilt verði að leggja á viðbótarálag ef ekið er um mannvirki án þess að greiða fyrir aðgang samkvæmt fyrirframbirtri gjaldskrá. Gert er ráð fyrir að gjaldtaka fari í flestum tilvikum fram með sjálfvirkum hætti. Lagt er til að notendagjöldin og viðbótarálagið hvíli sem lögveð í eitt ár á ökutæki sem ekur um gjaldskyld mannvirki án þess að greiða notandagjaldið.

Einnig er kveðið á um eftirlit með gjaldtökunni og viðurlög ef gjaldtakan er ekki í samræmi við kröfur sem eru gerðar í vegalögum eða reglum settum á grundvelli þeirra.

Áform um lagasetninguna voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 2. júlí sl., fyrir tæpu ári, og drög að frumvarpinu voru birt þar 14. nóvember sl. Niðurstaða áhrifamats vegna frumvarpsins var að af samþykkt þess fælist enginn aukinn kostnaður fyrir ríkissjóð umfram það sem gert er ráð fyrir í ramma málefnasviðs samgangna í fjármálaáætlun.

Virðulegur forseti. Meginmarkmið frumvarpsins er að leggja til heimild til handa Vegagerðinni að semja við einkaaðila um að hafa samvinnu um tilteknar brýnar framkvæmdir. Slíkum framkvæmdum fylgir ýmis ábati í formi tímasparnaðar, minni umhverfisáhrifa, minna slits á innviðum og farartækjum auk aukins umferðaröryggis sem allt stuðlar að þjóðhagslegum ábata.

Við núverandi aðstæður svarar frumvarpið brýnni þörf fyrir uppbyggingu fyrir komandi tíma, nýtt álag á vegi með vaxandi ferðamannastraumi. Það svarar brýnni þörf fyrir fjölgun starfa. Það svarar því að fleiri arðsamir fjárfestingarkostir verða fyrir langtímafjárfestingar, til að mynda lífeyrissjóðanna.

Ég legg því til að frumvarpi þessu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.