150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Það er gott að vera komin með þetta mál hingað inn og ég hlakka til að takast á við að fjalla um það í umhverfis- og samgöngunefnd. Ég er með nokkur atriði sem mér þætti gott að fá svör við í upphafi fyrst tækifæri gefst hér. Mig langar að spyrja ráðherra aðeins út í þetta með val á verkefnum. Í umsögninni kom aðeins fram það sjónarhorn að hafa lögin þannig að þetta væri bara opið, það væru ákveðin skilyrði sem þyrfti að uppfylla og síðan kæmi Vegagerðin að þeim gefnum með hugmyndir. Það er svolítið sérstakt að sjá þetta í lagasetningu og hvað ræður þessu? Eitt af skilyrðunum er að þetta séu stór verkefni og það er alveg klárt að þessi verkefni eru ekki öll stór. En hvað ræður því að það eru akkúrat þessi verkefni?

Mig langar að forvitnast líka um tímaáætlun. Ef svona verður búið um hnútana, er nokkuð því til fyrirstöðu að þetta fari bara hratt af stað?

Samhliða þessu er náttúrlega höfuðborgarsamningurinn þar inni, sem er svo sem mál sem er á dagskrá á eftir, en í þeim samningi er verið að tala um flýtigjöld. Ég var að velta því fyrir mér í ljósi þess að hér er verið að tala um stór verkefni sem snúast um leiðir Reykvíkinga inn og út úr borginni og síðan er verið að tala um uppbyggingu á vegum innan borgar, þar er verið að tala um flýtigjöld líka: Hafa menn eitthvað hugsað að þau þurfi mögulega ekki að vera jafn há og óttast var í ljósi þess að verið er að fara í þessar stóru framkvæmdir með þeirri áætlun? Felst mögulega einhver sparnaður í þessari leið fyrir þá íbúa höfuðborgarsvæðisins sem mega síðan vænta flýtigjalda? Hvernig er samspilið þarna? Þetta eru spurningarnar í fyrstu umferð, ég er með aðeins meira sem ég ætla að fá að bæta inn í mínútuna sem ég á eftir.