150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[17:13]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Takk aftur fyrir andsvarið. Þegar ég var að tala um hina leiðina var ég ekki að tala um þessa skuldsetningarleið. Fyrst í andsvari mínu áðan var ég bara að efast um það að tekjur ríkisins af umferð dygðu til flýtingar. Það getur vel verið að þessi skuldsetningarleið sé fín. Það sem ég átti við um hina leiðina voru vangaveltur hv. þingmanns um hvað væri átt við með hinni leiðinni, þ.e. þar sem hægt væri að komast hjá því að fara viðkomandi leið sem væri verið að setja í samvinnuverkefni. Það er auðvitað sú leið sem leggst af. Það er þannig að ef brú verður á Hornafjarðarfljóti leggst af um 11 eða 13 km krókur. Það voru í tilviki Hvalfjarðarganga rúmir 60 km o.s.frv. Það er auðvitað alltaf ljóst hvað er átt við þegar verið er að tala um að hægt sé að fara einhverja aðra leið. Auðvitað getum við farið hringinn í kringum landið austur, það er ekki það sem átt er við hér, eða einhverja sveitavegi um Suðurlandið, Þykkvabæ og hver veit hvað til að komast einhverjar leiðir austur um o.s.frv. Það er alveg klárt mál hvað er átt við með þessu.

Síðan aðeins um þetta Covid-mál, við erum alveg sammála um að þetta PPP-frumvarp er ekki Covid-mál, en í því samhengi sem ég var að ræða um Covid-mál sem eru auðvitað mál sem skipta okkur máli, hvort það er atvinnustig eða aðrar efnahagsaðgerðir eða samgöngur eða hvað það er, þá er þetta frumvarp hluti af því sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd þarf að hafa á hreinu, framlagt með öllum röksemdum, rétt eins og höfuðborgarsáttmálinn sem kemur hér á eftir, til að geta afgreitt samgönguáætlun (Forseti hringir.) og það er hún sem er mikilvæg í Covid-samhengi.