150. löggjafarþing — 97. fundur,  5. maí 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[18:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að horfa á þau gögn sem koma út úr vinnu starfshópsins og að sjálfsögðu á öll þau gögn sem við hin getum kynnt. Ég hef heyrt ýmis sjónarmið varðandi gagnrýni á allar leiðir, persónuverndarsjónarmið og sjónarmið sem varða það að horfa á ekna kílómetra. Áttu að borga sömu krónutölu fyrir ekinn kílómetra á holóttum tengivegi og á malbikaðri stofnbraut? Þú ert að borga það sama fyrir bensínlítrann. Það eru ýmis svona sjónarmið. Ég er bara opinn fyrir því og ég held að ég og hv. þingmaður munum örugglega eiga samtöl um þessi mál þegar þau koma til kasta þingsins.

Hvað varðar forgangsröðun þá get ég bara ítrekað það sem ég sagði, að ákveðnir mælikvarðar eru settir fram við forgangsröðun í samgönguáætlun og ég treysti því að þegar Vegagerðin og ráðuneytið unnu þá forgangsröðun og settu upp í samgönguáætlun, ýmist fimm eða tólf ára áætlun, hafi verið farið eftir því. Ég hef engar forsendur til að velta öðru fyrir mér, ég var ekki í þessari vinnu. Ég horfi á þetta, eins og ég reyndi að koma inn á í ræðu minni, sem eina stóra heildarmynd. Það væri að mínu viti best ef allir bitarnir í púslinu falla á sinn stað. Hvað gerist ef eitthvað gerir það ekki, breytir það forgangsröðun? Ég hef ekki forsendur til að standa hér og segja að það geri það. Ég treysti því bara, eins og ég segi, að í þeirri vinnu sem unnin var hvað varðar forgangsröðun í samgönguáætlun hafi verið farið eftir þeim mælikvörðum sem bar að gera.